Saturday, January 5, 2013

Febrúar 2008, færslur 51 - 55


06.02.2008 06:06:19 / tumsa
51. Handavinnuminningar
Fyrsta skiptið sem ég man eftir að hafa fengið hrós fyrir handverk var þegar krakkarnir í bekknum voru allir að búa sér til bolluvendi og sumum gekk ómögulega að krulla kreppappírinn með skærunum. Kennarinn sagði þá við einn strákinn; sjáðu bara hvernig Elín gerir þetta. Ég varð svo aldeilis hlessa og það er náttúrulega þess vegna sem ég man þetta. Mér fannst þetta eðlilegasti hlutur í heimi að krulla pappírinn. Þessi kennari kenndi okkur fyrstu þrjá veturna og mér finnst að þetta gæti hafa verið í öðrum bekk, en er þó ekki viss. Svo hefur það líklega verið í einhverjum af efri bekkjum barnaskólans sem við vorum að sauma kanínu í svæfilver og sporið mitt var svo jafnt og fínt og mér fannst það nánast verða af sjálfu sér og ekkert mál. Sumum öðrum gekk miður og það svo að ein stúlkan hágrét út af ekkisens kanínunni. Þarna fékk ég sem sagt lof fyrir eitthvað sem ég lagði mig alls ekkert fram við, heldur bara kom si svona. Ég man ekkert eftir öllum þeim skiptum sem ég skilaði einhverju sem ég hafði haft fyrir og trúlega er það af því að mér þótti það þá víst ekkert tiltökumál. Minnið er skrítin skepna.
Þessi færsla átti að fara inn 5. febrúar.
Sölvi afa- og ömmuljós á afmæli í dag. Innilega til hamingju.

06.02.2008 06:08:34 / tumsa
52. Drasl

Þetta fékk ég á skjáinn í fyrrakvöld:
Því miður er bilun í gangi í vélbúnaði sem hýsir BlogCentral
Vonast er til að viðgerð ljúki snemma í fyrramálið.
Jú, takk ég vona það líka:S
Þetta var þar í gærmorgun:
Því miður er bilun í vélbúnaði sem hýsir BlogCentral
Vonast er til að viðgerð ljúki í dag.
Það er nú svo.8)
Seinnipartinn var ekki sýnd sú kurteisi að útskýra neitt. :(Svo kom þetta:
Ef þú varst að reyna að komast inn á blog.central.is svæði þá viljum við benda þér á að reyna aftur sömu slóð nema hafa stóran staf í upphafi á sjálfu svæðinu. Þannig verður t.d. http://blog.central.is/slóð að http://blog.central.is/Slóð.

Ef þú ert eigandi þessarar síðu, farðu þá á
blog.central.is/hjalp og biddu um að þetta sé lagað þannig að ekki skipti máli hvort lítill eða stór stafur sé í slóðinni.
Bla blabla. 8|
Þegar ég kom af æfingu í gærkvöldi var engin skýring en ómögulegt að nálgast síðurnar þeirra og svo þegar ég sló bara inn blog.central.is þá kom þeirra eigin síða þar sem stóð glaðhlakkalega að allt væri nú komið í fínasta lag. :frown: Trúlega hafa þeir haldið það um fimmleytið því þá virtust hafa dottið inn færslur á nokkrar síður. :evil: Frat.
Lora skrifaði:
Viltu ella.skrifar.net ? :) ..það er nú kannski ekki frábært tæknimaður að störfum alla daga en þar eru engar auglýsingar!
   Fríða skrifaði:
Jáen, maður má ekki kvarta yfir því sem er ókeypis. Blogspot er líka ókeypis en ég hef bara enga ástæðu til að kvarta neitt.
   hildigunnur skrifaði:
hehe, Wordpress líka. Og ekki ein einasta auglýsing :p
   Helga Lilja skrifaði:
fjúkkit, já ég ætla að athuga hvort þessi brauðuppsskrift stemmir við brauðið sem mamma bakaði alltaf hér áður
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
hej jeg komst inn eftir langan tíma ad leit á netinu eftir blog central is tumsa nei gat ekki fundid thá sídu men loksins sá eg "handverkur" svo núna hef ég fundid sídunna. ju helga lilja thetta er örugglega brauduppskriftinn thetta er thad sem mamma bakadi alltaf og eg hef profad ad baka braudid og thad var alveg eins og hjá mömmu og svo ein lítil auglysing eg hef lika blogg sidu. heidveigragnarsdottir@hotmail.com
   ella skrifaði:
Ég vil hafa umhverfið á ÍSLENSKU:-)
   ella skrifaði:
Ja, Helga Lilja brauðuppskriftin er merkt: Frá Dóru.

07.02.2008 09:03:52 / tumsa
53. Bíó
Vá, þetta getur maður nú kallað að sofa út! Enda var horft á Engla alheimsins langt fram á nótt. Sú mynd hefur alveg sérstakan sess í mínum huga. Ég heimsótti Yngva bróður einu sinni á sjúkrahús og það barst í tal að ég væri að fara að horfa á Engla alheimsins í bíó. Gaman væri nú að sjá hana sagði hann. Við vissum bæði vel að í bíó færi hann aldrei aftur og ég hugsaði þetta mikið á leiðinni heim og á leiðinni upp Víkurskarðið ákvað ég að hringja í Friðrik Þór og athuga hvort hann fengist til að lána mér myndina á spólu en þetta var nokkru áður en hún kom á vídeóleigur. Það er ekki að orðlengja það að þetta var alveg sjálfsagt mál og ég mátti bara senda eftir henni á skrifstofuna til hans! Þegar pabbi kom þangað þumbaðist stúlka þar eitthvað við, enda aldeilis fráleitt frá viðskiptasjónarmiði séð að vera senda bláókunnugri manneskju norður í landi mynd sem var að slá í gegn og hefði verið leikur einn fyrir mig að fjölfalda eins og mér sýndist. Þetta gekk nú samt og þegar ég kom með myndina á stofuna til Yngva var þar stúlka eitthvað að vinna og ég sagði við þau meðal annars að ég hefði fengið spóluna lánaða og auðvitað lofað upp á æru og trú að hún yrði ekki afrituð. Við setjum svo myndina af stað en Yngvi hafði ekki heilsu til að horfa á hana í einni lotu svo að ég tók hana ekki með mér heim. Næst þegar ég kom til hans sagði hann mér glottandi að sjúkraliði hefði sagt hrifin daginn áður að hún gæti fengið bróður sinn til að afrita myndina en þá hafði hin brugðist snöggt við og aftekið það því að systir hans Yngva hefði sko lofað að það yrði ekki gert. Eins gott sko. Þegar ég sendi spóluna til baka þá setti ég með smá stykki úr hrosshári og beini og skrifaði að þetta hefði ekki mátt seinna vera. Ingimundur hafði það eftir starfsmanni Friðriks að hann hefði viknað.Yngvi dó þetta ár vegna heilaæxlis. Ég gekk fram á Friðrik í fyrrasumar þar sem hann var eitthvað að möndla með veiðistöng á bökkum Laxár og ég var ekki meðvitaðri en svo að ég var hálfnuð heim í bílnum þegar það rann upp fyrir mér að auðvitað átti ég að gefa mig á tal við hann og þakka honum með handabandi. Maður er stundum svo ótrúlega sljór.
   Fríða skrifaði:
Mig langaði ekki til að horfa á myndina. Ég held nú að ég hafi einhverntíma séð hana. Langar ekki að sjá hana aftur. Mér finnst hún of nöturleg. Eða ég tengi þetta við Yngva. Ég hef reyndar verið að velta því fyrir mér núna undanfarið að það er í rauninni skrýtið að hann skuli hafa langað til að sjá hana. Margir hefðu nú ekki viljað það. En hann var nú heldur ekki alveg venjulegur
   ella skrifaði:
Ónei, hann var það sko ekki. Ég horfði á hana, líklega í fjórða eða fimmta sinn. Það eru þvílíkir snilldartaktar í leik og svo horfi ég líka á búninga og svo er bara líka óborganleg speki í henni.

07.02.2008 09:08:03 / tumsa
54. Híhí
Þetta afritaði ég af síðunni þeirra:
Kæru vinir og velunnarar BlogCentral,
Aðstandendur BlogCentral harma þær tæknilegu hamfarir sem hafa dunið yfir vefinn síðastliðinn sólarhring.
Í sárabætur fyrir óþægindin sem bilunin kann að hafa valdið höfum við ákveðið að efna til skemmtilegrar samkeppni þar sem auglýst verður eftir skemmtilegasta blogginu á BlogCentral.
Ég hefði nú haft sólarhringinn í fleirtölu.
   Tóta skrifaði:
Já, velkomin á fætur frú. Nú hefur þú tækifæri til að keppa um skemmtilega færslu. Ætli "þeir" geri sér grein fyrir því hvað þeir eru að bjóða, það eru svo margir sem eru að blogga. Fín saga um Engla alheimsins og Yngva bróður.
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði.
Þú verður nú ekki í vandræðum með þessa áskorun, og láttu þá heyra(sjá) það í leiðinni. Tek undir með Tótu um englana og Yngva. Kveðja að vestan.
   ella skrifaði:
Sko það er ykkar að greiða atkvæði um skemmtilegustu bloggsíðuna.
   Helga Lilja skrifaði:
nú fékk ég tárin í augun vegna Yngvasögunnar. það er ágætt það er mikill spenningur í fjölskyldunni útaf þessari blessuðu brauðuppskrift get ég sagt ykkur, Dóróthea æltar að prófa uppskriftina fyrir þorrablótið okkar á laugardaginn. Held að þetta brauðmál eigi skilið blogg hjá mér í stað sníkjubloggs hér
   ella skrifaði:
Mér þykir mjög vænt um sníkjublogg. Og bráðskemmtilegt hvað hægt er að gagn af bloggi, til dæmis í brauðmálum.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thad er gott ad vita ad madur kemur gangs enhver stadar til dæmis i braudmálum
   Helga Lilja skrifaði:
já takk frænkur, Heiðveig ég skoðaði bloggið þitt en gat ekki sett komment, veit ekki hverju ég klúðraði slóðin á heiðveigu er: http://glinglo1.spaces.live.com/

08.02.2008 09:15:38 / tumsa
55. Snið
Langur Akureyrardagur í fyrradag. Hádegi til miðnættis næstum. Aðallega með fatahópi Laufáshópsins. Ég leitaði líka að efni í ermar á sparikjólinn minn en fann eiginlega ekki draumaefnið. Tók þá næsta bæ við og geri svo stuttan jakka, boleró eða hvað sem það nú nefnist, og stefni að því að klæðast honum á þorrablóti á laugardagskvöldið. Best að fara að rusla ljósakrónum og rafmagnsdóti af borðstofuborðinu og skálda upp eitthvert snið. Hvar er Hulda Ragnheiður?
   Þorbjörg skrifaði:
Bara til að kvitta, og láta vita af mér ;)Á maður ekki alltaf að gera það? Gangi þér vel með sniðavinnuna og stofuna. Bestu kveðjur Þorbjörg
   Fríðasystir skrifaði:
Nú, ég hélt að þorrablót væru búin
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði:
Æ synd og skömm að ekki er hægt að nota allt það efni sem fellur af himnum ofan þessa dagana. Þú sem ert svo hugmyndarík og framkvæmdarsöm, að það vefðist ekki fyrir þér að galdra fram fínasta silki og ég efast ekki um að það dygði í ermar. Jæja ekki meira bull, skemmtu þér vel og láttu þér ekki verða kalt í ermalausum kjól, án dansglaðra frænda til að halda á þér hita. Kveðja, Kristjana sem sér bara hvítt út um gluggann.
   Þórey Birna skrifaði:
Leit hér við. Takk kærlega fyrir síðast, mér sýndust þeir nú ekki vera margir dansarnir sem þú slepptir úr á blótinu. kv. Þórey þaksmiður :)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ég er næstum viss um ad ég hef thad efni sem thér vantar ég á svo mkid af efnum ad eg get opnad búd \"segir Henning\" en láttu mig vita næst thegar thig vantar etthvad en thad verdur ad vera í gód tíd góda skemmtun med ad snida og sauma vinnunna og á thorrablótinu
   ella skrifaði:
Jú einmitt Þorbjörg, það er ákaflega vel séð. Þorrablót klárast seint Fríða. Kristjana farðu út og búðu til styttur úr efninu þínu. Takk sömuleiðis Þórey, taldirðu nokkuð? Heiðveig, draumaefnið er örþunnt dökkvínrautt, með munstri í sama lit. Til dæmis svona eins og það sé saumað í.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
Nei thví midur held ekki ad ég eigi dökkvínrautt en eg vil kikja eftir thví og læt thig vita

Febrúar 2008, færslur 46 - 50


01.02.2008 06:11:12 / tumsa
46. Kuldi
Það virðist vera vetur úti. Ég er ekki frá því að hann sé líka inni. Mér er kalt. Spurning um að; 1 klæða sig meira, 2 hækka á ofnunum, 3 fara undir sæng, 4 vinna sér til hita, 5 einangra húsið, 6 skipta um glugga, 7 vera í hlýjunni úti í Tumsu. Æ, ég veit svei mér ekki. Sumt af þessu er kannski svolítið tímafrekt. Sumt af þessu kann ég ekki. Úff. Velja bara númer 3 smástund og fara svo yfir í númer 1 og jafnvel eftir það kannski númer 7. Það er að minnsta kosti girnilegra en að velja 4 þó að ég komist víst ekki hjá því í dag að taka til fyrir þorrablótið. Manni hitnar þó við þrif.

   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ég mundi velja numer 7, má eg koma med fyrir spurn? hefur thú uppskrift af braudi med lyfitdufti hun mamma bakadi thetta oft eg get hringt og spurt hana en thad er audveldara ad spurja thig thá tharf ekki ad finna kúlupennan fram takk fyrir ad eg má koma med svona fyrirspurn
   hildigunnur skrifaði:
Heitt kakó virkar líka voða vel...
   Helga María skrifaði:
Lopabrók og arinn eldur virkar best hér;)
   ella skrifaði:
Mér er kalt ennþá. Þakka hlýjar tillögur. Mér virðist að ef ég geri stutta samantekt á þeim muni útkoman vera sú að kasta föðurlandinu í eldinn og fara svo með kakó út í Tumsu!! Allur vandi leystur.

01.02.2008 11:10:46 / tumsa
47. Svar til Heiðveigar
Ég fann hér í bókinni minni uppskrift sem ég hef merkt ”frá Dóru”. Ég hef skrifað þetta niður þegar ég var nýkomin í Holtakot 1975.
8 bollar hveiti og – eða heilhveiti
8 tsk. lyftiduft
1 tsk salt
Mjólk (vatn – undanrenna) Kúmen?
Bakist við 150 - 170 gráður ca. klukkutíma og korter.
Mér sýnist að þetta geti nú tæplega einfaldara verið og þetta var hugsað svona aðallega til að grípa til ef vantaði brauð á milli þess sem pantanir bárust úr kaupstaðnum. Núna í þessu var ég að tala við mömmu og hún taldi að þetta hlyti að vera svipað og mamma þín gerði því þetta bakaði amma oft og sérstaklega fyrir jólin.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ella takk fyrir uppskriftinna kvedja heidveig

02.02.2008 06:16:09 / tumsa
48. Tölfræði
Í janúar setti ég inn 45 færslur. Innlit á síðuna voru 1653. Athugasemdir voru 186 frá 28 gestum, gestabók meðtalin. Ánægjuna kann ég ekki að mæla.:lol: Ég er afskaplega glöð með hvern og einn einasta gest. Þegar ég sé ný nöfn fæ ég fiðring í fingur því mig langar að þakka öllum fyrir komuna og tjá þeim ánægju mína, en ég reyni að hemja mig því að það er kannski svolítið einhæfur lestur.
Ég var búin að segja að veitt yrði viðurkenning fyrir flestar skráðar athugasemdir frá einum gesti í hverjum mánuði og ég tel ekki að það komi neinum á óvart að hún fer núna til..... Fríðu systur :!: (Ég ætla sjálf að vera á undanþágu.) Hún er með 30 og næst er Heiðveig með 14. Þegar ég hugsa málið held ég að það gæti orðið svolítið einhæfur listi að miða alla mánuði við þann sem hefur flestar skráningar, þannig að til þess að fá tilbreytingu í málið er ég að hugsa um að í febrúar verði dreginn út “heppinn þátttakandi”. Þá ætla ég að draga á milli þeirra sem eru skráðir 5 sinnum eða oftar.Ég átti víst eftir að segja hver viðurkenningin er. Af því að þetta er tölfræði, þá er það handgerð tala. Nú er bara að setja markið hátt og byrja að safna á peysu. Farið bara ekki að gera hnappagötin strax, tölurnar verða vafalaust misstórar.
Hafið þið áttað ykkur á því að tólfti hluti ársins er búinn! Ég held það taki því orðið varla að læra hvaða ár er.
   Helga María skrifaði:
Góða skemmtun á blóti, þú étur kanski eins og einn pung fyrir mig og drekkur nokkur glös af "ammarúllar" Knúzzz
   ElsaGuðný skrifaði:
ég verð greinilega að fara að herða mig í athugasemdunum. Það gengur náttúrulega ekki að ég líti hér inn á hverjum degi en geri aldrei vart við mig. En ég er náttúrulega svo hógvær... En jæja, best að fara að moka sig út úr kofanum og grafa niður á drossíuna svo að við komumst nú á blótið góða í kvöld :)Sjáumst á eftir
   ella skrifaði:
Helga þó, þekkirðu mig??? Jahá Elsa mín, ekkert upp úr svoleiðis laumuspili að hafa:-)
   Fríðasystir skrifaði:
:) nújá. Heppin ég :) Best að fara að prjóna :)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thetta er gaman svo verd ég ad koma med jafn miklar færslur og vinna t¨lu, úr hverju er talan unninn? Mér skilst ad thú ert ad fara á thorrblót góda skemmtun. ég er líka ad fara á ball og borda thad er ekkert thorrablót thad er mjög danskt svona einslags hjónaball og madur kemur med mat og drykki sjálfur ég ætla allavega ad skemmta mér ps. fæ ég ekkert fyrir ad vera númer tvö eda er thad fyrst núna í thessum mánudi sem vid byrjum ad keppast um flestar færslur
   ella skrifaði:
Tölur gætu orðið úr allrahanda hráefni svona eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni. Aðeins ein viðurkenning er veitt í hverjum mánuði og ég stefni að því að segja í upphafi hvers mánaðar eftir hverju verður farið í það og það skiptið. Nú held ég áfram að sneiða hrútspunga, brytja rauðrófur o.s.frv.
   ella skrifaði:
Helga María, ég reddaði þessu með glans.

 03.02.2008 19:13:18 / tumsa
49. Embætti
Mikið er gaman að hafa gaman. Þetta var snilldarþorrablót. :haha: Bestu skemmtiatriði án nokkurs vafa síðan ég fór að fara hér á blót. Vandi verður fyrir næstu nefnd að toppa þetta. Þið meigið giska einu sinni á hver var skipaður formaður hennar. 8| Það er krefjandi embætti að sjá til þess að 400 til 500 manns skemmti sér konunglega frá klukkan 9 að kvöldi og fram undir morgun. Jafnvel þó að 7 manneskjur hjálpist að við verkið. Jæja, það skal nú samt líka verða gaman. Þó ekki væri nema fyrir okkur. Ég er strax byrjuð að setja punkta á blað.
Ég má til að léttast um nokkur kíló. Það sem er mest áríðandi við það er að ég næ ekki að dansa alla dansa á einu balli án þess að vera farið að verkja í fæturna. Það er vond fötlun. Ég var með heilan hóp af góðum dönsurum með mér í gærkvöldi (jújú R. S. þú ert ágætur líka.) og synd og skömm að geta ekki nýtt þá betur.
Ég er byrjuð á stofunni. Áður en Róbert S. fór í dag hjálpaði hann mér að taka niður og gera við ljósin og fjarlægja utanáliggjandi tengingar sem ég vil ekki nota meira og setti í staðinn upp tvær rússneskar ljósakrónur svo að nú er mér ekkert að vanbúnaði að fara að rýma svæðið og pússa og laga og mála. Ætli það byrji nú að ráði samt fyrr en eftir viku eða svo.
   Fríðasystir skrifaði:
Og hvað er verið að gera við þessa stofu?
   ella skrifaði.
Eins og ég skrifaði í túdúlista fyrr á þessu ári þá þarf að mála stofuna og lagfæra loftið en því var frestað árum saman vegna þakleka sem er nú blessunarlega hættur:-)
   Tóta skrifaði.
Það er aldeilis dugnaður í þér stelpa. Svona hefur dansinn góð áhrif á fólk, maður bara fer í banastuð. Gaman að heyra að það hafi verið svona gaman á þorrablóti. kveðja úr Borginni. Tóta

04.02.2008 08:43:46 / tumsa
50. Bloggaðgengi
Mikið var að ég komst loks inn. Og þá lítur síðan út eins og hálfviti. Ég vænti að það standi samt til bóta.
Ég verð bráðum hundpirruð á því hversu erfiðlega gengur stundum að komast inn á síður blog.central þessa dagana. :evil: Oft kemst ég jafnvel frekar inn á Óttars síðu en mína. Það er víst ekki sama Jón eða séra Jón frekar en fyrri daginn. Lendið þið ekki í þessu líka? Ég las einhversstaðar hjá þeim að þetta væri stærsta bloggsamfélag landsins og væri að springa utan af sér svo að það gætu orðið truflanir á meðan væri verið að stækka fötin en fyrr má nú aldeilis fyrrvera eins og maðurinn sagði. Þvuhh. Þetta er svo viðbót við hundlélegt netsamband og sadda tölvu. Ójá, það eru ekki alltaf jólin.Gaman samt að vera til. :) Mér heyrist á sjálfri mér að ég hafi sungið töluvert á þorrablóti. Spurning um fjallagrasate.
Ég skrifa alltaf allar færslur inn á word og afrita á bloggið. Núna þegar ég pikka þetta inn er klukkan að ganga 7 að morgni og og langur dagur og góður framundan. Mæta til vinnu um klukkan 11 og vinna til 3 á einum stað og svo til klukkan 6 á öðrum. Reyna þá að nálgast afganginn af búningasafninu í Ýdölum og troða því í bílinn á leiðinni heim. Skreppa þá heim og svo í Breiðumýri og byrja að gramsa í fötum og máta á mannskapinn og æfa. Núna stendur valið um að fara út í Tumsu og kemba ull sem var verið að panta hjá mér fyrir miðvikudag, eða reyna að sofa um stund áður en ég fer. Ef ég þekki mig rétt verð ég samt ekki nógu syfjuð til þess fyrr en ég ætti helst að fara að leggja af stað.
Nú er klukkan að nálgast 9 og ég prófa að fara að sofa.
   ElsaGuðný skrifaði:
Takk fyrir síðast, þetta var ferlega skemmtilegt verð ég að segja. Ævintýri okkar "Akureyringanna" voru þó bara rétt að byrja þegar við kvöddum þig. Nú eigum við vini í Fnjóskadal, ekki amalegt það. Segi ferðasöguna við betra tækifæri
   Þóra skrifaði:
Já ég er sammála Elsu. Bestu skemmtiatriði sem ég hef séð á blóti í Aðaldal. Ferðin suður gekk vel...komin um tíu leytið. Takk fyrir okkur. Sjáumst vonandi sem fyrst.
   Gréta María skrifaði:
ég þarf einhverntíman að fá að prófa að koma á þorrablót í Aðaldalnum hef heyrt svo margar skemmtilegar sögur af þeim.
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði:
Sæl og takk fyrir síðast. Heimferðin gekk vel máttum ekki vera seinna á fer yfir Víkurskarð. Lögðum svo íann á hádegi vestur og vorum komin kl. hálf átta, orðin frekar lúin, en hvað er það miðað við öll skemmtilegheitin sem við fengum út úr ferðinni, barnabörnin annarsvegar og svo þú og þitt fólk hinsvegar. Hvað er hægt að byðja um betra. Heyrðu ertu strax farin að taka til í nýju þorrablótsnefndinni, mig minnir að það væru tilnefndir 9 í nefndina, það væri gaman að vita hvort þetta hefði eitthvað með ástandið á laugardaginn að gera.? Ella mín, ástar þakkir til þín og Agnars fyrir góðar móttökur og skemmtilegt blót. Kveðja, Kristjana, já og líka kveðja frá frænda þínum.
   ella skrifaði:
Úbbs, Kristjana, þar opinberaði ég laglega stærðfræðikunnáttu mína. Eins og Elsa ýjaði að hér að ofan komust víst ekki allir á leiðarenda um nóttina. Gréta María, hjartanlega velkomin á blót hvenær sem er.

Janúar 2008, færslur 41 - 45


29.01.2008 07:46:01 / tumsa
41. Lovjúmissjú
Einhver hefur ef til vill tekið eftir því að engin færsla var bókuð í gær og er það í fyrsta sinn sem ég sleppi úr degi. Nettengingin var svo slitrótt í gærkvöldi að ég lét það þá bara eiga sig.
Ég er mjög á móti því að sífellt sé verið að tala við börn með þessum orðum; ég elska þig, ég sakna þín. Í fyrra tilfellinu er verið að verðfella orðatiltæki með því að sveifla því um í tíma og ótíma og í seinna tilvikinu er hamrað á söknuði sem mér finnst vera “mínus”orð. Ég flokka þetta undir frasa sem segja jafnvel ekkert alltaf endilega svo mikið um tilfinningar. Ég sagði mínum ömmustrák sem er að flytja af landinu að ég ætlaði hreint ekkert að eyða tíma í að sakna hans því að þá yrði ég bara leið, en ég ætlaði hins vegar að byrja strax að hlakka til að hitta hann næst því að það væri miklu hollara og skemmtilegra að hlakka til en sakna. Hann bara samþykkti þetta blessað barnið eins og flest sem amma segir, ég vona að hann hafi skilið hvað ég var að fara.
   Edda Rós skrifaði:
Að sumu leyti er ég sammála þér, en engu að síður sakna ég stundum að vera í félagsskap þín, Gunnu, Helgu, Sveindísar, Ragnheiðar og fá að tína tómata með ykkur... Það voru barasta ágætustu tímar sem við áttum þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið í gangi undir niðri. Annars ertu alltof dugleg að blogga, ég er nefnilega alveg hrillilega vanaföst og það tekur ný blogg margar vikur að síast inn í minnið mitt og alltaf þegar ég man eftir að kíkja á bloggið þitt þá ertu búin að skrifa svo ofsalega margt og mikið!
   ella skrifaði:
Elsku besta Edda mín, þér er sko alveg guðvelkomið að sakna mín og ég sakna þessara samverustunda líka. Það sem ég er að spekulera er hvað varðar börn og hvað innprentast í þau. Ég þarf kannski líka að taka það skýrt fram að ég er viss um að þetta er alltaf vel meint.
   Hanna skrifaði:
Ég er nú alveg sammála þér með söknuðarhlutann, held að það sé ekki gott fyrir börnin. Hins vegar held ég að oftar vanti uppá að fólk virkilega segi börnunum sínum að þau elski þau.
   hildigunnur skrifaði:
Ég segi krökkunum mínum (já og reyndar manninum) eiginlega bara mjög oft að ég elski þau, en aldrei samt þannig að það verði að rútínu, nei, meina það af öllu hjarta í öll skiptin. Bara get ekki séð að það gjaldfelli neitt ;)Og til hamingju með nýja bloggið...
   ella skrifaði:
Gaman að sjá ykkur hér Hanna og Hidigunnur (jújú, þig líka Edda mín) Já ég er sammála því að ekki á að ganga bara að því sem gefnu að allir viti að manni þyki vænt um þá, bara ekki að láta það koðna niður í hvunndagskveðju. Hlý snerting gerir líka sama gagn en kannski ekki auðvelt að koma því við gegnum síma:-)
   hildigunnur skrifaði:
Nei, einmitt, alveg sammála.


29.01.2008 14:31:51 / tumsa
42. Blessuð sólin elskar allt...
Hæhæoghó. Það sést örlítil sneið af sólinni úr gluggum húss míns! :D Í fyrsta sinn frá því í nóvember!! Róbert Stefán, komdu strax og bakaðu pönnukökur handa mér.
   fríðasystir skrifaði:
Svona er að búa í norður hlíð. Engin sól á veturna
   ella skrifaði:
Hefði líklega verið skynsamlegra að heita bara Tumsa áfram.
   Helga María skrifaði:
eg get svo komið og borðar pönnukökurnar, er góð í því;I)
   Róbert Stefán skrifaði:
En þú ert að fara að bjóða mér í mat um helgina....þarf ég þá nokkuð að koma með mat með mér eða búa til mat heima? Er ekki nóg annað til?
   ella skrifaði:
Hvað er þetta barn, sólarkaffið á að vera í dag! Helga mín, vertu ævinlega velkomin, en værirðu þá til í að grípa með þér rjómaslettu? Pönnukökurnar eru betri þannig og ekki meigum við horast niður.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Ææ, ef ég hefði nú hugsað til þín fyrir viku síðan og rúmlega það, þá hefði ég ekki hikað við að bjóða þér í rjómapönnukökur og alles. Ég man það bara næst 20.jan 2009, þú verður bara í startholunum. Kveðja úr sólinni fyrir vestan.
   ella skrifaði:
Ójá já, sumir eru sólarmegin í lífinu. Þessi glæta í dag varaði nú ekki margar mínútur er þetta potast allt í rétta átt.
   Róbert Stefán skrifaði:
Nú er ég vaknaður svei og svei
   ella skrifaði:
Velkominn á fætur barnið mitt:-)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thad er líka sól hér svo hún breidir sig vítt og breitt í dag
   ella skrifaði:
Ef á annað borð er heiðskýrt þarf ég aldrei að fara langt til að komast í sólskin, Innan við kílómetri dugar.

30.01.2008 16:01:11 / tumsa
43. Dönsum gegnum lífið
Hún Brynja frænka mín (sjá tengil hér til hliðar) bendir í færslu 21. jan. á snilldarmyndband. Ég get horft á það aftur og aftur og aftur.
   Nanna skrifaði:

Nauh snilld. En gaman! 

30.01.2008 23:50:22 / tumsa
44. Gnauð á glugga
Oj, nú er veðrið brostið á. Eins gott að ég var komin heim af leikæfingunni.


31.01.2008 07:07:25 / tumsa
45. Léttavara
Einhver var að dúlla sér við það í nótt að mála gluggana mína hvíta.
Ég talaði í gær í síma við nær áttræðan mann sem mér er mjög nákominn. Hann fræddi mig meðal annars á því að hann væri búinn að kaupa sér bíl. Ég spurði hvernig bíl og hann sagði lítinn, léttan og fjórhjóladrifinn. Ég spurði hví léttan? Jú, það vil ég vegna þess að ef léttur bíll lendir í árekstri við þungan þá drepst maðurinn í létta bílnum líklegast en hinn ekki og ég vil miklu heldur drepast en drepa aðra. Jahá, þetta finnast mér snilldarrök. Svo sagði hann mér líka að maður geti ekki komið í veg fyrir að einhver deyi, aðeins stundum frestað því. Bjargi maður ungum manni frá drukknun þá hefur maður líklega frestað dauða hans um einhverja áratugi... Ha, já, greip ég þá fram í, og ef þú sérð gamlan mann úti í vatni, þá finnst þér tæpast taka því að sinna honum! Og svo veltumst við feðginin um af hlátri. Gálgahúmor? Nei nei, gálgar koma ekkert við sögu hér. Og svo sagði hann mér líka að hann hefði strax farið að gá hvað mætti bjóða nýja bílnum. Krakkar, kannist þið nokkuð við þetta ha?
   Róbert Stefán skrifaði:
Afi hefur alltaf verið með bíladellu! Hann skellir sér þá kannski í annan sunnudagsbíltúr og bankar hjá þér eins og um árið.
   Fríðasystir skrifaði:
óésús minn. Ætlar hann nú líka að gera eins og allir synir hans að leggja af stað eitthvað uppímóti og halda áfram þar til hann situr fastur
   Hlíf skrifaði:
Hehe. Ungur maður með bíladellu. Einmitt í gær hringdi ég í hann til að spyrjast fyrir um geymslupláss hjá honum. Hann bauðst strax til að sækja mig svo ég gæti komið og séð sjálf plássið. Hann hefur væntanlega viljað sýna mér bílinn:) Því miður var ég á bíl sjálf.
   Óttar skrifaði:
Ha Fríða, hvenær hef ég gert svoleiðis?
   ella skrifaði:
Ég velti því raunar fyrir mér líka. Ég bara þekkti Óttar ekkert á bílaaldrinum því ég bjó svo langt í burtu.

Janúar 2008, færslur 36 - 40


23.01.2008 16:27:59 / tumsa
36. Skondið
Ég talaði um það í 16. færslu að við Nanna Rögnvaldardóttir ættum sitthvað sameiginlegt. Við sögðum báðar upp líftryggingum okkar í dag! Án samráðs. :o Og ég er stöðugt súr yfir því að geta ekki séð athugasemdirnar hjá henni. Við þekkjumst ekki og mér vitanlega höfum við ekki sést.;)
   Fríðasystir skrifaði:
Hún hefur nú skrifað eitthvað um að hún hafi verið í MA, er það ekki?
   ella skrifaði:
Jú, Ég var farin frá Akureyri þá.
   Hlíf skrifaði:
Ég þekki bróður hennar.
   ella skrifaði:
Kennari?

24.01.2008 07:23:49 / tumsa
37. Til heiðurs Fríðu
Nennekki. :( Mér leiðast bílar sem gera ekki það sem þeir eru fæddir til. :evil: Ég þarf að læra hlutverk. Heilastarfsemi mín, það er að segja minnið, hefur dalað með árunum.
   Þóra skrifaði:
Já stundum kemur fyrir að ég nennekki neinu....hafðu það gott og gangi þér vel að læra hlutverkið. Hlakka til að sjá ykkur þarnæstu helgi.
   fríðasystir skrifaði:
(ég er að hunsa þessa færslu hafir þú ekki tekið eftir því)
   ella skrifaði:
Já ég sé að þú gerir það af öllum kröftum.
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
oooøv nu verd eg án tölvu í nokkra dag eg veit ekki hvernig eg lifi án hennar øvøvøvthad á ad setja nýtt windows í og tölvumadurinn min hann ole "hann er en norman" vill taka tölvunna med heim øvøvø svo ég get ekki lesid sídunna i enhverja daga vid sjáumst seinna

25.01.2008 10:22:50 / tumsa
38. Falskt flagg
Ótrúlega margir virðast labba um og halda að ég sé dugleg. 8| Ég er búin að finna skýringuna á þessum misskilningi. Þegar ég er löt þá nenni ég ekki að blogga. Þegar ég er dugleg finnst mér það svo merkilegt og einstakt að ég má til að setja það niður á blað – eða skjá svo það gleymist ekki. Ég er ekki alveg viss um að það flokkist sem dugnaður þegar maður álpast til að taka að sér meira en maður ræður við þó að það geti verið gaman að því stundum. Nú í morgun nennti ég til dæmis alls ekki á lappir þegar ég vaknaði en morguninn er annars að öllum jafnaði virkasti tíminn fyrir mig. Ég lá bara og naut þess að hlusta á fullyrðingar útvarpsins um vonda færð og veður annars staðar á landinu og þurfa ekki að fást við það sjálf. Hér er eintóm blíða og rétt mátulega mikill snjór til að draga úr myrkrinu. Nú ætla ég samt að drattast út í Tumsu og sýnast dugleg. Nema Agnar nenni að koma með mér að reyna að setja straumlausan bíl í gang. Straumlausir bílar :evil:. Annars má bílgreyið mitt eiga það að hann bilar alls ekki oft miðað við aldur og fyrri störf. Hann hlýtur að vera kominn hátt á tvítugsaldur. Já neinei, Agnar nennir því ekki núna, vill heldur fara í vinnuna. Gott og vel, við vinnum þá bara.
   Tóta skrifaði:
Ella mín, ég nenni nú ekki að labba um með þessar spekúleringar um dugnað þinn, ég bara sit við tölvuna helst með kaffibolla við hlið. Bara svona til að leiðrétta þann miskilning.
   fríðasystir skrifaði:
nú borðaði síðan aftur kommentið mitt
   ella skrifaði:
Ruglaðist þú á núlli og o?

 26.01.2008 14:52:23 / tumsa
39. Eplakaka
Ívan og Jakob búnir að setja eplakökuna í ofninn. :) Stundum er óþolandi fyrirgangur í þessum krakkaormum. :klikk: Það gæti orðið bið á að þeir verði hér báðir saman aftur því að Ívan flytur til Írlands eftir viku.:^) Mér finnst óttalega vitlaust að barnabörn séu höfð í útlöndum en maður ræður víst litlu um það. Þá er bara að hlakka til pabbaheimsókna heim til Íslands og vonandi þá stundum á norðurlandið.
   fríðasystir skrifaði:
Það er sem sagt ákveðið að hann fari? Ég get sussum lítið sagt um þetta með að hafa barnabörn í útlöndum, ég gerði þetta sjálf.
   ella skrifaði:
Ójá, eins og þrír bræður okkar.
   Tóta skrifaði:
Já, svona er þetta haltumérslepptumér ástand. En þetta kallar kannski á að amman getur kannski pínt karlinn á bænum til að stíga upp í flugvél og ferðast til útlands. En kannski er það of mikil bjartsýni hérna megin? Við Pétur ræddum það heilmikið að næst skildum við draga ykkur tvö á sólarströnd, minnug þess hve þú naust þess að fara sjóinn. Annars sit ég hér heima á laugardagskvöldi á sjöundu hæð og ráfa um á netinu með annað augað á sjónvarpinu og keypta SS sviðasultu og súran lifrapylsubita ásamt orkudrykk á borðinu fyrir framan mig. Mjög þjóðlegt ekki satt? ...svona er Ísland í dag (eða ætti ég að segja Reykjavík? )
   ella skrifaði:
Ég dáist ákaflega að bjartsýni ykkar:-) Annars er ég að spá í jarðakaup þannig að ég þarf líklega að þétta takið um budduna.

27.01.2008 19:48:23 / tumsa
40. Púff
Jæja, vinnumennirnir farnir. Búnir að baka eplaköku (eina ofnskúffu og hún er búin), renna sér mikið á sleðum, gefa kindunum, sauma sér eyrnabönd, hlusta á útvarpsleikrit (hef grun um að slíkt sé ekki gert að staðaldri), leika sér lengi á næsta bæ og útkeyra afa og ömmu. ;) Þeir borðuðu eplakökuog ís, hákarl, hafragraut, morgunkorn, saltkjöt og baunir, soðna ýsu, ábrystir og egg. Já og ekki má gleyma því að þeir fullyrtu að jólakakan hans Agnars væri afbragðsgóð. :lol: Það er alltaf yndislegt þegar þeir koma og léttir þegar þeir fara.:)
   Fríðasystir skrifaði:
Nú, varstu ekki að segja að þeir hefðu verið að leika sér lengi á næsta bæ. Varla útkeyrðust afar og ömmur rétt á meðan
   ella skrifaði:
Þetta voru tveir sólarhringar, við leggjum það ekki allt á næsta bæ. Við notuðum tímann til að slaka á við vinnu á meðan:-)

Janúar 2008, færslur 31 - 35


20.01.2008 20:22:28 / tumsa
31. Lyfting
Jólakakan átti að verða sérlega létt og fín því ég var ekkert að spara eggin enda nóg til, hænurnar farnar að verpa aftur og svona. Það þýddi nú samt ekki að það væri allt í lagi að gleyma lyftiduftinu. Ætti kannski að æfa mig oftar.

21.01.2008 05:47:31 / tumsa
32. 1000
Í nótt kom þúsundasti gesturinn á síðuna. Fyrirgefðu að ég skyldi ekki bjóða þér jólaköku, ég var bara sofandi.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Góðan dag og velkomin á fætur. Reyndar hugsa ég að þú sofir varla ef taka má mark á listananum góða sem ég las áðan, um aðgerðaáætlun. En hvað er húfukort ?, annað er ég að skilja, allavega á minn hátt. Hér heilsar nýr dagur fallegur og bjartur snjóföl yfir og landið fagurt. Það trúa bara svo fáir að hér hafi ekki komið vont veður og kafsnjór, en svona er þetta bara, það má ekki blása á suðurlandi þá er bókað að það sé verra hér, sem er sjaldnast. að öðru, en gaman að fá að "heyra" af Heiðveigu, það er æði langt síðan við höfum frétt af henni, hingað til hafa gamlar minningar verið notaðar, enda góðar. Hæ Heiðveig !! Þá verður þetta ekki lengra í bili, þarf að sinna dægurþrasinu. Kveðja að vestan, Kristjana Mmmmm hvað er annars langt til þín ha.................
   ella skrifaði:
Húfukort er tækifæriskort úr handgerðum pappír, leðri, togi, silfurvír, silfurkeðju og hrosshári. Úr þessu geri ég mynd aftan af höfði peysufatakonu. Það er nefnilega það sem er skemmtilegt við bloggið eins og ég vil nota það, að spjalla um heima og geima við gamla, og eftir atvikum nýja vini og tengja þá saman. Ég hef ekki græna glóru um hversu langt er til mín í kílómetrum en þú ert kannski að meina í dögum? :-)
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
já hæ kristjana ja´thad er langt sídan ég hef lika verid ad rifja upp gamlar gódar minningar og skoda myndir frá "tálknó" hvar byrd thú/thid erud thid ennthá á vestfjördunum? thad er svo gaman ad lesa bloggid thitt ella thví madur fær alltaf enhver ný ord ad kenna og svo er ég byrjud ad prjóna ílenskar lopapeysur og thar get ég æft mig í íslenkunni mér finnst mer ganga thó nokud vel ekki rétt ?...sko vid ad lesa uppskriftinar mig vantar fleiri bækur ætla ad hringja í álfoss á morgun og panta feiri
   ella skrifaði:
Heiðveig það eru líka alltaf einhverjar ókeypis uppskriftir á istex.is
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Ok eg verd ad profa thad ...eg er ad tala vid jóh¨nnu systir á msn og var ad segja henni ad eg væri ad heimsækja thig á blogginu og hún spurdi hvort hún mætti lika koma í heimsokn her á sídunna
   ella skrifaði:
Jahahá, ALLIR velkomnir, því fleiri, því meira gaman.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Hæ aftur, bara svara Heiðveigu, við búum enn á Tálknafirði svo það ætti að vera lítið mál að finna okkur. Erum tvö í kotinu, nóg pláss. Kveðja Kristjana

22.01.2008 06:52:29 / tumsa
33. Föt
Jamm. Þá er að tína til snöggvast eina 20-30 alklæðnaði á lægri stéttar braggahverfisbúa á ýmsum aldri á árunum kring um 1955-1960. Þigg aðstoð og ábendingar og föt og myndir.
   Unnur María skrifaði:
Það er auðvitað mjög mikið af myndum í braggabókinni hans Eggert Þórs Bernharðssonar. (Undir bárujárnsboga) Kemstu í hana? Ef þú átt ekki auðvelt með það get ég alveg fyrst ég er nú daglega á bókasafninu ljósritað nokkrar viðeigandi myndir og skellt í umslag til þín. :) Segðu bara til. :)
   ella skrifaði
Ja þarna var auðvitað rétta manneskjan! Við vorum einmitt að spá í þessa bók í gærkvöldi og ég fékk hana einu sinni lánaða hjá skjólstæðingi mínum hér í sveitinni, en ég á eftir að komast að því hvert bókin fór eftir að eigandinn dó. Ég fann mynd á netinu af "mér" þ.e.a.s. ljósmyndarinn var alinn upp af Jósefínu og ég er næsta viss um að þetta er hún. Ég sló inn "braggahverfi". Ég er nú alls ekki klárasti leitarinn og mér þykir mjög vænt um að fá að eiga þig að og hef líklega samband þegar ég sé hvað hinir í hópnum reyta saman. Takk.
   Hlíf frænka skrifaði.
Kærastinn minn á þessa bók og hann á líka skanna... svo ég gæti líka sent þér myndir í tölvupósti:)
   Gréta María skrifaði:
ég á engar myndir eða bækur handa þér, en langaði bara að kvitta fyrir mig og knúsa þig soldið í leiðinni. kveðja til Agnars líka Gréta María og "englarnir" hennar

22.01.2008 19:23:48 / tumsa
34. Dösuð
Þetta var bara skrök að að ég þyrfti að finna til 20 – 30 alklæðnaði. :) Ég fór í morgun vandlega í gegn um handritið og setti upp exelskjal með persónum og leikendum og búningum og mér virðist að ég þurfi að tína til ca. 40 alklæðnaði. :( Þá er það um það bil helmingur af því sem þurfti í Landsmótinu sem við lékum síðast. Ég var svo heppin í gærkvöldi að fá manneskju mér til aðstoðar og ég veit að hún verður betri en engin. Í dag hringir hún svo í mig og segir mér að það sé verið að tæma búningageymslur Búkollu heitinnar og eigi að henda þar miklu. Þetta búningasafn er barnið mitt og mér brá nokkuð og brunaði í Ýdali, þá átti sem sagt að rýma þar til sem ég hafði reyndar frétt áður, en ég var að vona að það drægist þangað til ný búningageymsla yrði tilbúin á Breiðumýri. Við flokkuðum og tókum til og farið var með 2 troðfulla bíla í ruslagám, 2 í geymslu í Ljósvetningabúð og ég fyllti minn og á eftir að sækja annað eins til að fara með í Breiðumýri. Mikið væri yndislegt að hafa umráð yfir aðgengilegu búningasafni í góðu plássi þar sem hægt væri að ganga að hverjum hlut. Mér virtist nú í þessari hröðu og óskipulegu yfirferð að þarna væri líklega megnið af því sem við þurfum á að halda í Djöflaeynni, bara spurning um að velja. Þá þarf ég að vera búin að spuggulera meira í myndum. Ég þarf til dæmis að gera mér betur grein fyrir klæðnaði konu sem er að koma úr saltfiskvinnu í ískulda og kemur að barni sínu sem er búið að svifta sig lífi. Takk fyrir skjót og góð viðbrögð Unnur og Hlíf, ég á eftir að sjá hvað kemur upp úr krafsinu í leikhópnum en ég mun hafa samband.
   Jóhanna Ragnars skrifaði:sæl frænka gaman að fletta í gegnum færslurnar hjá þér þú virðist hafa fleiri kl.tíma í sólahringnum en við hin, gaman að fá að fylgjast með. heyrumst síðar. kv. jóhanna   Fríðasystir skrifaði:Já, spáðu í að hafa svona búningageymslu eins og í Örlaganóttinni. Þú veist, múmín   Óttar skrifaði:örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin...   ella skrifaði:Óttar minn er allt í lagi? Annars þykir mér leitt að viðurkenna það að ég náði aldrei eins góðum tengslum við múmínálfana eins og systkini mín sum. Stafar það eitthvað af því að ég fór snemma að heiman?

23.01.2008 02:04:18 / tumsa
35. Dagur eða nótt
Síðast þegar ég vaknaði leit ég á gluggann og var ekki frá því að það væri að koma smá dagsskíma, enda var ég svo glaðvakandi að það gat bara vel passað. Rölti fram og taldi rétt að fara að tygja sig út í Tumsu og halda áfram þar sem frá var horfið þegar ég hentist af stað í búningana í gær. Leit á klukku og hún var rúmlega miðnætti. 8| Svona getur það verið ef maður sofnar fyrir klukkan átta að kvöldi. Best að fara bara samt út fyrst ég varð ekki nógu syfjuð af bloggrúntinum. Þið eruð stundum að nefna að ég virðist eiga aukatíma, en málið er líklega bara að þegar maður má nýta tímann næstum eins og manni sýnist en þarf ekki alltaf að miða sig við annarra tíma, til dæmis lítilla barna, skóla eða vinnuveitenda, þá hlýtur að verða meira úr honum. Eins og ég segi; sofa þegar maður er syfjaður og vinna þegar maður er sprækur. ;) Rétt að taka það fram að það sem ég vinn utan heimilis á veturna er þannig skipulagt að ég mæti svona cirka klukkan þetta eða hitt og skila ákveðnum tímafjölda. Stundum er ég aðeins lengur eða skemur eftir því hvernig stendur á spori. Ef ég er að vinna í Kaðlín er ég sennilega alltaf lengur en það eru svo fáir tímar sem þarf að skila þar á þessum árstíma.
   Fríðasystir skrifaði:
Já, eins gott að vita þetta. Annars leit ég nú svona undir gluggatjaldið klukkan svona 5 í nótt og sýndist himininn nokkuð bjartur. Þá var þetta bara tunglið að glenna sig
   Róbert Stefán skrifaði:
Já það er skelfilegt að eldast og hætta að geta sofið á morgnana :(
   ella skrifaði.
Hvernig veistu??
   Róbert Stefán skrifaði.
Ég er aðeins farinn að kynnast því!

Janúar 2008, færslur 26-30


18.01.2008 09:32:35 / tumsa
26. Litlu mennirnir innan í mér
Þegar ég var kornung var ég með það á hreinu að líkama mínum væri stjórnað af litlu mönnunum innan í mér. Það sem ég man best núna er að ef ég var veik þá stafaði það af því að litlu mennirnir innan í mér voru að rífast. Þeir hljóta þá að hafa farið í stríð þegar ég var tæplega tveggja ára og botnlanginn sprakk svo ég fékk lífhimnubólgu og var í dái í marga daga. Ég man ekki mikið eftir þessu nema að það var svo skrýtin líðan þegar ég var að læra að labba upp á nýtt. Mig mun hafa svimað. Annað man ég líklega ekki frá þessum tíma en oft eru ekki glögg skil á því sem maður man sjálfur og því sem manni hefur verið sagt. Ég gæti svona trúað að maður muni frekar sjálfur tilfinningu og hugsanir, en sögur annarra séu oftar um tilsvör og atburði. Þegar þetta gerðist var ekki komin barnadeild á Akureyri og ég lá á stofu með eldri konum. Meðal þess sem mér hefur verið sagt er að ég hafi stundum sagt við þær. Viltu hringja bjöllunni svo að konan komi svo að mamma mín komi? Mamma var að vinna á sjúkrahúsinu á þessum tíma og skrapp stundum til mín. Á þessum tíma tíðkaðist aldeilis ekki að foreldrar væru mikið að þvælast fyrir við umönnun veikra barna sinna á stofnunum. Við styttum okkur víst líka stundir með því að konurnar þjálfuðu mig í tali, til dæmis þótti þeim gaman að heyra mig segja aðspurð: Þú heitir Gvuðfiinnna. Ég vandaði mig víst mikið og kvað fast að. Ég er stundum að hugsa að mig langar að lesa læknaskýrslurnar mínar frá þessum tíma en það er víst meira en að segja það að finna þær í einhverjum geymslum. Árið mun vera 1958.
   Gréta María skrifaði:
börn eru svo sniðug og skemmtileg og horfa á heiminn og líkamann svo allt öðrum augum en við fullorðnu. mamma er komin heim frá Kanarí en internetið er eitthvað að hrella hana ég býst við því að hún kíki bráðum á bloggið þitt kveðja Gréta María. ps. er ég númer hundrað?
   ella skrifaði:
Óttalegur þvælingur er þetta á gamla fólkinu nú til dags, ég hafði ekki hugmynd um að hún væri ekki á landinu. Jú Gréta María þú ert númer 100!

18.01.2008 13:16:12 / tumsa
27. Nr.100
Næsta athugasemdafærsla verður sú hundraðasta á blogginu mínu. Þið eruð aldeilis dugleg. Ég er búin að ákveða að veita viðurkenningar fyrir næstmesta fjölda athugasemda í lok hvers mánaðar.:) Það á að vera næstmest vegna þess að ég er sjálf með mest því að ég er svo oft að svara athugasemdum.
   fríðasystir skrifaði:
hvernig ferðu eiginlega að því að telja athugasemdir?
   ella skrifaði:
Ég fylgist með því á vefstjórn hvort eitthvað hefur bæst við svo að ég missi nú ekki af gullkornum ykkar. Svo fór ég að gamni mínu að merkja við á exelskjali. Þetta eru athugasemdir númer 105.
   Þóra skrifaði:
Jahá...ég á ekki til orð.
   ella skrifaði:
Gott hjá þér að skrifa samt Þóra mín:-)
   Nanna skrifaði:
Hehe, fyndið

 18.01.2008 22:56:15 / tumsa
28. Jibbýjeiog trallalei.
Mér leiðist ekki lífið rétt núna, eiginlega er ég himinlifandi. :D Síminn hringdi í kvöld og …ég fæ skemmtilegasta hlutverkið í Djöflaeyjunni!!!! :D Þið megið giska en ég hef ekki trú á að það taki ykkur langan tíma að finna hvaða hlutverk það er. Já og svo ætla ég líka víst að sjá um búningana. Túdúlisti hvað? Ég geri það nú allt bara svona með hinni hendinni. Trallalallalei. Þið megið samgleðjast mér það er nefnilega enginn hérna til þess. Agnar deilir ekki með mér áhuga á leikhúsi greyið.:(
   fríðasystir skrifaði:
verðurðu hún þarna spákéddlingin?
   fríðasystir skrifaði:
en þú hefur ekki tíma, varstu búin að gleyma því?
   Nanna skrifaði:
:) Til hamingju með það. Það er svo langt síðan ég las bókina, að ég hef ekki hugmynd um hvaða hlutverk þú fékkst...
   ella skrifaði:
Uvvðida. Tíma? Hvað er nú það?? Stelonum bara einhvursstaðar.
   fríðasystir skrifaði:
til hamingju :) ég skil þetta uvvida þannig að þú sért Lína. Nú ætla ég að lesa djöflaeyjuna og ímynda mér þig segja hluti eins og t.d.: "Þetta er smá helvítis tittur" haha já, og: "Já og hann skal ekki fara að hitta Éggvan færeying og einhverjar tittlinganámur með mínu leyfi núna, heyrirðu það Tómas, einhverjar norskar tittl..." Mikið vona ég að þessar línur séu ekki bara í bókinni heldur leikritinu líka.
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
til hamingju Ella: Thú hefur thvílika orku finnst mér ég fæ svolitla minnimáttarkennd en thú ert alveg frábær finnst mér. vildi óska ad ég gæti gert svona mikid nokkud af thvií sem ég vil gera kemur aldrei lengra en í draumaheiminn
   ella skrifaði:
Því miður þín vegna Fríða er ég hrædd um að ég sé ekki með þessar setningar, ég er bara einu sinni búin að renna í gegn um handritið og mér sýndist að það væru nú aðallega Baddi og félagar sem hefðu þennan munnsöfnuð. Blessuð vertu Heiðveig, þú hefur hálfa æfina til að gera það sem þú átt ógert! Bara að bretta upp ermarnar og forgangsraða upp á nýtt. Já ég veit, ég tala bara eins og þetta sé ekkert mál.
   Marcia skrifaði:
Til hamingju, Ella! :) En ég skil ekki, með allt annað sem þú hefur talað um að gera á næstunni, hvar þú finnur tími til þess! lol Jæja, goða skemmtun!
   ella skrifaði:
Takk takk allir. Marcia, ég sagði það hér að ofan; ég stel bara tíma einhversstaðar:-)
   Þorbjörg skrifaði:
til hamingju með hlutverkið

19.01.2008 22:07:19 / tumsa
29. Svöng
Mér finnst ekki vera neitt til til að borða. Opna ísskápinn og langar ekki í neitt sem þar er. Kannski þess vegna sem ég léttist? Hálfur mánuður síðan ég fór í kaupstað og ekkert til ofan á brauð og engir ávextir. Ætti kannski ekkert að vera að þvælast í kaupstað fyrr en í vor. Ég fer þá ef til vill að passa í eitthvað af fötunum mínum aftur. Ekkert hungur samt svona til að forðast allan misskilning enda matur í fjórum frystikistum, bara ekkert sem mig langar í.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Æ það var ekki hægt annað en að láta vita af sér, úr því þú hafðir svo mikið fyrir að koma til okkar "handvekinum". Frænda þínum var svolítið brugðið; það er ekkert nema um hunda og brækur, hafa þær ekkert þarfar að tala um. Ég brosti bara, hvernig eiga kallar að skilja kvennahjal ? Jæja "gamla", ( það er svo langt síðan við hittumst fyrst) vonandi færðu einhverja fleiri af skilduliðinu til að skrisfast á við þig og leggja orð í belg, kanski kemur eitthvað skemmtilegt út úr því. Eftir því sem ég kemst næst kemur þú ekki til með að skrifa mikið næstu 6 vikurnar, ef ég les rétt úr, svo þú verður að romsa úr þér áður en þú verður andsetin af spákerlingunni. Jæja, best að fara að sofa, hér er nógur tími til að sofa, enda engar rullur undir koddanum. Kíki á þig seinna. Kveðja Kristjana
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Æi hvad ég skil thig thad eru svona dagar til en veistu hvad ég geri thegar mer finnst ísskápurinn vera tómur thá baka ég pönnukökur ekki bara svona fimm stykki nei nei margar!!!! thess vegna passa ég ekki í fötin mín svo thú ættir ad halda thér frá thví, en ég er byrjud ad gera eitthvad í thví núna tví ég vil grennast er byrjud í svoan klúbb thar sem eg fæ rád og vigtun byrjadi í sídustu viku
   ella skrifaði:
Haaa Kristjana, er honum eitthvað farið að förlast gamla manninum? Mig rámar hvorki í að hafa fjallað um hunda né brækur og væri þó hvorttveggja verðugt efni. Heiðveig, á mínu heimili var það bara yngsti sonurinn sem bakaði pönnukökur en hann er löngu fluttur að heiman.
   ella skrifaði:
...og kvennahjal?!?!? Hér eru bara skynsamlegar spekúleringar fyrir skynsamt fólk!! Af öllum kynjum! Vertu svo bara velkominn frændi minn og Kristjana.

20.01.2008 19:41:46 / tumsa
30. Haldið ykkur nú fast
Svei mér þá, ég er búin að baka jólaköku. 8| Þetta gerðist síðast einhvern tíma á síðustu öld, man alls ekki nánari tímasetningu. Og ekki einu sinni af því að mig hafi sjálfa langað í hana, nei, Agnar tautaði að hann langaði í jólaköku þegar hann var að sofna í gærkvöldi og ég sagðist baka hana í dag og vantrú hans var svo augljós að ég mátti auðvitað til. Svona er maður nú alltaf eftirlátur og meyr. ;) Eða þannig.