Saturday, January 5, 2013

Febrúar 2008, færslur 46 - 50


01.02.2008 06:11:12 / tumsa
46. Kuldi
Það virðist vera vetur úti. Ég er ekki frá því að hann sé líka inni. Mér er kalt. Spurning um að; 1 klæða sig meira, 2 hækka á ofnunum, 3 fara undir sæng, 4 vinna sér til hita, 5 einangra húsið, 6 skipta um glugga, 7 vera í hlýjunni úti í Tumsu. Æ, ég veit svei mér ekki. Sumt af þessu er kannski svolítið tímafrekt. Sumt af þessu kann ég ekki. Úff. Velja bara númer 3 smástund og fara svo yfir í númer 1 og jafnvel eftir það kannski númer 7. Það er að minnsta kosti girnilegra en að velja 4 þó að ég komist víst ekki hjá því í dag að taka til fyrir þorrablótið. Manni hitnar þó við þrif.

   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ég mundi velja numer 7, má eg koma med fyrir spurn? hefur thú uppskrift af braudi med lyfitdufti hun mamma bakadi thetta oft eg get hringt og spurt hana en thad er audveldara ad spurja thig thá tharf ekki ad finna kúlupennan fram takk fyrir ad eg má koma med svona fyrirspurn
   hildigunnur skrifaði:
Heitt kakó virkar líka voða vel...
   Helga María skrifaði:
Lopabrók og arinn eldur virkar best hér;)
   ella skrifaði:
Mér er kalt ennþá. Þakka hlýjar tillögur. Mér virðist að ef ég geri stutta samantekt á þeim muni útkoman vera sú að kasta föðurlandinu í eldinn og fara svo með kakó út í Tumsu!! Allur vandi leystur.

01.02.2008 11:10:46 / tumsa
47. Svar til Heiðveigar
Ég fann hér í bókinni minni uppskrift sem ég hef merkt ”frá Dóru”. Ég hef skrifað þetta niður þegar ég var nýkomin í Holtakot 1975.
8 bollar hveiti og – eða heilhveiti
8 tsk. lyftiduft
1 tsk salt
Mjólk (vatn – undanrenna) Kúmen?
Bakist við 150 - 170 gráður ca. klukkutíma og korter.
Mér sýnist að þetta geti nú tæplega einfaldara verið og þetta var hugsað svona aðallega til að grípa til ef vantaði brauð á milli þess sem pantanir bárust úr kaupstaðnum. Núna í þessu var ég að tala við mömmu og hún taldi að þetta hlyti að vera svipað og mamma þín gerði því þetta bakaði amma oft og sérstaklega fyrir jólin.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ella takk fyrir uppskriftinna kvedja heidveig

02.02.2008 06:16:09 / tumsa
48. Tölfræði
Í janúar setti ég inn 45 færslur. Innlit á síðuna voru 1653. Athugasemdir voru 186 frá 28 gestum, gestabók meðtalin. Ánægjuna kann ég ekki að mæla.:lol: Ég er afskaplega glöð með hvern og einn einasta gest. Þegar ég sé ný nöfn fæ ég fiðring í fingur því mig langar að þakka öllum fyrir komuna og tjá þeim ánægju mína, en ég reyni að hemja mig því að það er kannski svolítið einhæfur lestur.
Ég var búin að segja að veitt yrði viðurkenning fyrir flestar skráðar athugasemdir frá einum gesti í hverjum mánuði og ég tel ekki að það komi neinum á óvart að hún fer núna til..... Fríðu systur :!: (Ég ætla sjálf að vera á undanþágu.) Hún er með 30 og næst er Heiðveig með 14. Þegar ég hugsa málið held ég að það gæti orðið svolítið einhæfur listi að miða alla mánuði við þann sem hefur flestar skráningar, þannig að til þess að fá tilbreytingu í málið er ég að hugsa um að í febrúar verði dreginn út “heppinn þátttakandi”. Þá ætla ég að draga á milli þeirra sem eru skráðir 5 sinnum eða oftar.Ég átti víst eftir að segja hver viðurkenningin er. Af því að þetta er tölfræði, þá er það handgerð tala. Nú er bara að setja markið hátt og byrja að safna á peysu. Farið bara ekki að gera hnappagötin strax, tölurnar verða vafalaust misstórar.
Hafið þið áttað ykkur á því að tólfti hluti ársins er búinn! Ég held það taki því orðið varla að læra hvaða ár er.
   Helga María skrifaði:
Góða skemmtun á blóti, þú étur kanski eins og einn pung fyrir mig og drekkur nokkur glös af "ammarúllar" Knúzzz
   ElsaGuðný skrifaði:
ég verð greinilega að fara að herða mig í athugasemdunum. Það gengur náttúrulega ekki að ég líti hér inn á hverjum degi en geri aldrei vart við mig. En ég er náttúrulega svo hógvær... En jæja, best að fara að moka sig út úr kofanum og grafa niður á drossíuna svo að við komumst nú á blótið góða í kvöld :)Sjáumst á eftir
   ella skrifaði:
Helga þó, þekkirðu mig??? Jahá Elsa mín, ekkert upp úr svoleiðis laumuspili að hafa:-)
   Fríðasystir skrifaði:
:) nújá. Heppin ég :) Best að fara að prjóna :)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thetta er gaman svo verd ég ad koma med jafn miklar færslur og vinna t¨lu, úr hverju er talan unninn? Mér skilst ad thú ert ad fara á thorrblót góda skemmtun. ég er líka ad fara á ball og borda thad er ekkert thorrablót thad er mjög danskt svona einslags hjónaball og madur kemur med mat og drykki sjálfur ég ætla allavega ad skemmta mér ps. fæ ég ekkert fyrir ad vera númer tvö eda er thad fyrst núna í thessum mánudi sem vid byrjum ad keppast um flestar færslur
   ella skrifaði:
Tölur gætu orðið úr allrahanda hráefni svona eftir því hvernig liggur á mér hverju sinni. Aðeins ein viðurkenning er veitt í hverjum mánuði og ég stefni að því að segja í upphafi hvers mánaðar eftir hverju verður farið í það og það skiptið. Nú held ég áfram að sneiða hrútspunga, brytja rauðrófur o.s.frv.
   ella skrifaði:
Helga María, ég reddaði þessu með glans.

 03.02.2008 19:13:18 / tumsa
49. Embætti
Mikið er gaman að hafa gaman. Þetta var snilldarþorrablót. :haha: Bestu skemmtiatriði án nokkurs vafa síðan ég fór að fara hér á blót. Vandi verður fyrir næstu nefnd að toppa þetta. Þið meigið giska einu sinni á hver var skipaður formaður hennar. 8| Það er krefjandi embætti að sjá til þess að 400 til 500 manns skemmti sér konunglega frá klukkan 9 að kvöldi og fram undir morgun. Jafnvel þó að 7 manneskjur hjálpist að við verkið. Jæja, það skal nú samt líka verða gaman. Þó ekki væri nema fyrir okkur. Ég er strax byrjuð að setja punkta á blað.
Ég má til að léttast um nokkur kíló. Það sem er mest áríðandi við það er að ég næ ekki að dansa alla dansa á einu balli án þess að vera farið að verkja í fæturna. Það er vond fötlun. Ég var með heilan hóp af góðum dönsurum með mér í gærkvöldi (jújú R. S. þú ert ágætur líka.) og synd og skömm að geta ekki nýtt þá betur.
Ég er byrjuð á stofunni. Áður en Róbert S. fór í dag hjálpaði hann mér að taka niður og gera við ljósin og fjarlægja utanáliggjandi tengingar sem ég vil ekki nota meira og setti í staðinn upp tvær rússneskar ljósakrónur svo að nú er mér ekkert að vanbúnaði að fara að rýma svæðið og pússa og laga og mála. Ætli það byrji nú að ráði samt fyrr en eftir viku eða svo.
   Fríðasystir skrifaði:
Og hvað er verið að gera við þessa stofu?
   ella skrifaði.
Eins og ég skrifaði í túdúlista fyrr á þessu ári þá þarf að mála stofuna og lagfæra loftið en því var frestað árum saman vegna þakleka sem er nú blessunarlega hættur:-)
   Tóta skrifaði.
Það er aldeilis dugnaður í þér stelpa. Svona hefur dansinn góð áhrif á fólk, maður bara fer í banastuð. Gaman að heyra að það hafi verið svona gaman á þorrablóti. kveðja úr Borginni. Tóta

04.02.2008 08:43:46 / tumsa
50. Bloggaðgengi
Mikið var að ég komst loks inn. Og þá lítur síðan út eins og hálfviti. Ég vænti að það standi samt til bóta.
Ég verð bráðum hundpirruð á því hversu erfiðlega gengur stundum að komast inn á síður blog.central þessa dagana. :evil: Oft kemst ég jafnvel frekar inn á Óttars síðu en mína. Það er víst ekki sama Jón eða séra Jón frekar en fyrri daginn. Lendið þið ekki í þessu líka? Ég las einhversstaðar hjá þeim að þetta væri stærsta bloggsamfélag landsins og væri að springa utan af sér svo að það gætu orðið truflanir á meðan væri verið að stækka fötin en fyrr má nú aldeilis fyrrvera eins og maðurinn sagði. Þvuhh. Þetta er svo viðbót við hundlélegt netsamband og sadda tölvu. Ójá, það eru ekki alltaf jólin.Gaman samt að vera til. :) Mér heyrist á sjálfri mér að ég hafi sungið töluvert á þorrablóti. Spurning um fjallagrasate.
Ég skrifa alltaf allar færslur inn á word og afrita á bloggið. Núna þegar ég pikka þetta inn er klukkan að ganga 7 að morgni og og langur dagur og góður framundan. Mæta til vinnu um klukkan 11 og vinna til 3 á einum stað og svo til klukkan 6 á öðrum. Reyna þá að nálgast afganginn af búningasafninu í Ýdölum og troða því í bílinn á leiðinni heim. Skreppa þá heim og svo í Breiðumýri og byrja að gramsa í fötum og máta á mannskapinn og æfa. Núna stendur valið um að fara út í Tumsu og kemba ull sem var verið að panta hjá mér fyrir miðvikudag, eða reyna að sofa um stund áður en ég fer. Ef ég þekki mig rétt verð ég samt ekki nógu syfjuð til þess fyrr en ég ætti helst að fara að leggja af stað.
Nú er klukkan að nálgast 9 og ég prófa að fara að sofa.
   ElsaGuðný skrifaði:
Takk fyrir síðast, þetta var ferlega skemmtilegt verð ég að segja. Ævintýri okkar "Akureyringanna" voru þó bara rétt að byrja þegar við kvöddum þig. Nú eigum við vini í Fnjóskadal, ekki amalegt það. Segi ferðasöguna við betra tækifæri
   Þóra skrifaði:
Já ég er sammála Elsu. Bestu skemmtiatriði sem ég hef séð á blóti í Aðaldal. Ferðin suður gekk vel...komin um tíu leytið. Takk fyrir okkur. Sjáumst vonandi sem fyrst.
   Gréta María skrifaði:
ég þarf einhverntíman að fá að prófa að koma á þorrablót í Aðaldalnum hef heyrt svo margar skemmtilegar sögur af þeim.
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði:
Sæl og takk fyrir síðast. Heimferðin gekk vel máttum ekki vera seinna á fer yfir Víkurskarð. Lögðum svo íann á hádegi vestur og vorum komin kl. hálf átta, orðin frekar lúin, en hvað er það miðað við öll skemmtilegheitin sem við fengum út úr ferðinni, barnabörnin annarsvegar og svo þú og þitt fólk hinsvegar. Hvað er hægt að byðja um betra. Heyrðu ertu strax farin að taka til í nýju þorrablótsnefndinni, mig minnir að það væru tilnefndir 9 í nefndina, það væri gaman að vita hvort þetta hefði eitthvað með ástandið á laugardaginn að gera.? Ella mín, ástar þakkir til þín og Agnars fyrir góðar móttökur og skemmtilegt blót. Kveðja, Kristjana, já og líka kveðja frá frænda þínum.
   ella skrifaði:
Úbbs, Kristjana, þar opinberaði ég laglega stærðfræðikunnáttu mína. Eins og Elsa ýjaði að hér að ofan komust víst ekki allir á leiðarenda um nóttina. Gréta María, hjartanlega velkomin á blót hvenær sem er.

No comments:

Post a Comment