Saturday, January 5, 2013

Janúar 2008, færslur 41 - 45


29.01.2008 07:46:01 / tumsa
41. Lovjúmissjú
Einhver hefur ef til vill tekið eftir því að engin færsla var bókuð í gær og er það í fyrsta sinn sem ég sleppi úr degi. Nettengingin var svo slitrótt í gærkvöldi að ég lét það þá bara eiga sig.
Ég er mjög á móti því að sífellt sé verið að tala við börn með þessum orðum; ég elska þig, ég sakna þín. Í fyrra tilfellinu er verið að verðfella orðatiltæki með því að sveifla því um í tíma og ótíma og í seinna tilvikinu er hamrað á söknuði sem mér finnst vera “mínus”orð. Ég flokka þetta undir frasa sem segja jafnvel ekkert alltaf endilega svo mikið um tilfinningar. Ég sagði mínum ömmustrák sem er að flytja af landinu að ég ætlaði hreint ekkert að eyða tíma í að sakna hans því að þá yrði ég bara leið, en ég ætlaði hins vegar að byrja strax að hlakka til að hitta hann næst því að það væri miklu hollara og skemmtilegra að hlakka til en sakna. Hann bara samþykkti þetta blessað barnið eins og flest sem amma segir, ég vona að hann hafi skilið hvað ég var að fara.
   Edda Rós skrifaði:
Að sumu leyti er ég sammála þér, en engu að síður sakna ég stundum að vera í félagsskap þín, Gunnu, Helgu, Sveindísar, Ragnheiðar og fá að tína tómata með ykkur... Það voru barasta ágætustu tímar sem við áttum þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið í gangi undir niðri. Annars ertu alltof dugleg að blogga, ég er nefnilega alveg hrillilega vanaföst og það tekur ný blogg margar vikur að síast inn í minnið mitt og alltaf þegar ég man eftir að kíkja á bloggið þitt þá ertu búin að skrifa svo ofsalega margt og mikið!
   ella skrifaði:
Elsku besta Edda mín, þér er sko alveg guðvelkomið að sakna mín og ég sakna þessara samverustunda líka. Það sem ég er að spekulera er hvað varðar börn og hvað innprentast í þau. Ég þarf kannski líka að taka það skýrt fram að ég er viss um að þetta er alltaf vel meint.
   Hanna skrifaði:
Ég er nú alveg sammála þér með söknuðarhlutann, held að það sé ekki gott fyrir börnin. Hins vegar held ég að oftar vanti uppá að fólk virkilega segi börnunum sínum að þau elski þau.
   hildigunnur skrifaði:
Ég segi krökkunum mínum (já og reyndar manninum) eiginlega bara mjög oft að ég elski þau, en aldrei samt þannig að það verði að rútínu, nei, meina það af öllu hjarta í öll skiptin. Bara get ekki séð að það gjaldfelli neitt ;)Og til hamingju með nýja bloggið...
   ella skrifaði:
Gaman að sjá ykkur hér Hanna og Hidigunnur (jújú, þig líka Edda mín) Já ég er sammála því að ekki á að ganga bara að því sem gefnu að allir viti að manni þyki vænt um þá, bara ekki að láta það koðna niður í hvunndagskveðju. Hlý snerting gerir líka sama gagn en kannski ekki auðvelt að koma því við gegnum síma:-)
   hildigunnur skrifaði:
Nei, einmitt, alveg sammála.


29.01.2008 14:31:51 / tumsa
42. Blessuð sólin elskar allt...
Hæhæoghó. Það sést örlítil sneið af sólinni úr gluggum húss míns! :D Í fyrsta sinn frá því í nóvember!! Róbert Stefán, komdu strax og bakaðu pönnukökur handa mér.
   fríðasystir skrifaði:
Svona er að búa í norður hlíð. Engin sól á veturna
   ella skrifaði:
Hefði líklega verið skynsamlegra að heita bara Tumsa áfram.
   Helga María skrifaði:
eg get svo komið og borðar pönnukökurnar, er góð í því;I)
   Róbert Stefán skrifaði:
En þú ert að fara að bjóða mér í mat um helgina....þarf ég þá nokkuð að koma með mat með mér eða búa til mat heima? Er ekki nóg annað til?
   ella skrifaði:
Hvað er þetta barn, sólarkaffið á að vera í dag! Helga mín, vertu ævinlega velkomin, en værirðu þá til í að grípa með þér rjómaslettu? Pönnukökurnar eru betri þannig og ekki meigum við horast niður.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Ææ, ef ég hefði nú hugsað til þín fyrir viku síðan og rúmlega það, þá hefði ég ekki hikað við að bjóða þér í rjómapönnukökur og alles. Ég man það bara næst 20.jan 2009, þú verður bara í startholunum. Kveðja úr sólinni fyrir vestan.
   ella skrifaði:
Ójá já, sumir eru sólarmegin í lífinu. Þessi glæta í dag varaði nú ekki margar mínútur er þetta potast allt í rétta átt.
   Róbert Stefán skrifaði:
Nú er ég vaknaður svei og svei
   ella skrifaði:
Velkominn á fætur barnið mitt:-)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thad er líka sól hér svo hún breidir sig vítt og breitt í dag
   ella skrifaði:
Ef á annað borð er heiðskýrt þarf ég aldrei að fara langt til að komast í sólskin, Innan við kílómetri dugar.

30.01.2008 16:01:11 / tumsa
43. Dönsum gegnum lífið
Hún Brynja frænka mín (sjá tengil hér til hliðar) bendir í færslu 21. jan. á snilldarmyndband. Ég get horft á það aftur og aftur og aftur.
   Nanna skrifaði:

Nauh snilld. En gaman! 

30.01.2008 23:50:22 / tumsa
44. Gnauð á glugga
Oj, nú er veðrið brostið á. Eins gott að ég var komin heim af leikæfingunni.


31.01.2008 07:07:25 / tumsa
45. Léttavara
Einhver var að dúlla sér við það í nótt að mála gluggana mína hvíta.
Ég talaði í gær í síma við nær áttræðan mann sem mér er mjög nákominn. Hann fræddi mig meðal annars á því að hann væri búinn að kaupa sér bíl. Ég spurði hvernig bíl og hann sagði lítinn, léttan og fjórhjóladrifinn. Ég spurði hví léttan? Jú, það vil ég vegna þess að ef léttur bíll lendir í árekstri við þungan þá drepst maðurinn í létta bílnum líklegast en hinn ekki og ég vil miklu heldur drepast en drepa aðra. Jahá, þetta finnast mér snilldarrök. Svo sagði hann mér líka að maður geti ekki komið í veg fyrir að einhver deyi, aðeins stundum frestað því. Bjargi maður ungum manni frá drukknun þá hefur maður líklega frestað dauða hans um einhverja áratugi... Ha, já, greip ég þá fram í, og ef þú sérð gamlan mann úti í vatni, þá finnst þér tæpast taka því að sinna honum! Og svo veltumst við feðginin um af hlátri. Gálgahúmor? Nei nei, gálgar koma ekkert við sögu hér. Og svo sagði hann mér líka að hann hefði strax farið að gá hvað mætti bjóða nýja bílnum. Krakkar, kannist þið nokkuð við þetta ha?
   Róbert Stefán skrifaði:
Afi hefur alltaf verið með bíladellu! Hann skellir sér þá kannski í annan sunnudagsbíltúr og bankar hjá þér eins og um árið.
   Fríðasystir skrifaði:
óésús minn. Ætlar hann nú líka að gera eins og allir synir hans að leggja af stað eitthvað uppímóti og halda áfram þar til hann situr fastur
   Hlíf skrifaði:
Hehe. Ungur maður með bíladellu. Einmitt í gær hringdi ég í hann til að spyrjast fyrir um geymslupláss hjá honum. Hann bauðst strax til að sækja mig svo ég gæti komið og séð sjálf plássið. Hann hefur væntanlega viljað sýna mér bílinn:) Því miður var ég á bíl sjálf.
   Óttar skrifaði:
Ha Fríða, hvenær hef ég gert svoleiðis?
   ella skrifaði:
Ég velti því raunar fyrir mér líka. Ég bara þekkti Óttar ekkert á bílaaldrinum því ég bjó svo langt í burtu.

No comments:

Post a Comment