Thursday, January 3, 2013

Janúar 2008, færslur 16 - 20


11.01.2008 11:50:22 / tumsa
16. Tengill

Þetta hljóta að vera viss tímamót á ferli hvers bloggara. Nú hefur bloggari sem ég þekki ekki persónulega sett á mig tengil. Ég er mjög glöð með það. Þetta er hún Nanna. Ekki samt Nanna frænka mín.. ja eða ég ætla að gá.. Jú, jú, við erum frænkur í áttunda lið í föðurætt beggja. Og merkilegt nokk, ættliðirnir bara þokkalega samferða í tíma og aðeins árs aldursmunur á okkur. Ég rambaði á síðuna hennar í haust af síðu Hildigunnar sem ég fór á af síðu Fríðu og ég sökk bara í. Fór að lesa skipulega frá fyrsta bloggi og hafði þetta sem framhaldssögu. Gat nú samt ekki látið fara vel um mig í rúminu eins og ég er vön við lestur því tölvan mín er svo ómeðfærileg. Eiginmaðurinn botnaði ekkert í þrásetum mínum við skjáinn og spurði stundum hvort ég væri virkilega enn að lesa þessa konu. Frá mínum bæjardyrum er samt bloggið hennar meingallað því að ég get ekki séð athugasemdirnar við það og það breyttist ekkert þó að ég telji mig hafa hlaðið inn hjá mér einhverjum eldref en ég get svosem ábyggilega alveg hafa gert það eitthvað vitlaust. Ég sé bara mjótt lóðrétt strik þar sem ég þykist vita að spekin sé. Ég líklega verð bara að taka aðra törn og lesa það allt aftur þegar ég er búin að endurnýja tölvukostinn hvaða ár sem það nú verður. Ég sé hjá okkur töluverðan andlegan skyldleika fyrir utan þennan í áttunda liðnum. Og margt sambærilegt í lífshlaupinu. Ætli meginmunurinn sé ekki bara sá að handverk hennar er í flestum tilvikum ætt en mitt óætt? Já og svo gæti ég held ég aldrei hugsað mér að búa í Reykjavík.


11.01.2008 18:55:52 / tumsa
17. Dansidansi
Mér finnst svo eindregið að litlu stelpurnar sem eru að dansa saman í auglýsingunni hérna vinstra megin séu Kristín og Sveindís!? Hvað segið þið um það Edda og Helga María? Vinir og fjölskylda Heilabrot
   Helga María skrifaði:
Algjörlega sammála með Kristínu, ekki eins með Sveindísi, en það er bara ég ;)
   Gréta María skrifaði:
rosalega ertu búin að vera dugleg að blogga, ég er búin að lesa allt og kvitta hér. Ég er búin að hlaða inn öllum myndunum úr sveitinni á barnalandið :) kveðja Gréta María.
   Edda Rós skrifaði:
Ég er sammála...


12.01.2008 06:55:32 / tumsa
18. Túdú

Ég hef gaman af Íslensku. Ég er á móti slettum. Undantekningin sannar regluna. - Eða hvað? Mér hefur reyndar alltaf þótt þetta síðasta hljóma ósannfærandi. Mér finnst samt Túdúlisti mjög flott orð. Hvað gæti þetta verið á Íslensku?
Aðgerðaáætlun; ojbarasta.
Þarf að gera; óþjált.
Minnisblað; minnir mig nú bara á óheiðarlega pólitík.
Tossamiði; líklega langskást en túdúlisti samt flottara. Ég ætla að gera túdúlista.
Bráðum.
   Þóran skrifaði:
Mér finnst orðið túdúlisti flottari en hitt. Heyrðu sendu mér bara kílóin þín í pósti...þau geta nú ekki verið mörg. Mér finnst þú ekkert vera of stór. En ég skal samt taka þín með. Hlakka til að sjá ykkur...knús knús Þóra.
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Hvad thýdir túdulisti thad er ekki svo oft sem ég tala íslensku svo ég vissi ekki hvad ég ætti ad segja hvis enhver sagdi túdulisti vid mig svo thad vildi vera mjög fródlegt ef ég fékk ad vita ádur en ég kem í thá pínlegu stödu og vita ekki hvad thad thýdir . thad er margt sem ég á í svolitlum vndrædum med vardandi íslensekt tungumál og thess vegan vil ég verda mér úti um eitthvad ad lesa á íslensku annad en dagblödinn thví ég veit ekki alltaf hvad umrædan er svo ég vil fá mér enhverjar skemmtilegar bækur til ad lesa. Hef ekki athugad hvort madur getur pantad enhverjar héran á bókasafninu thad er kannski möguleiki. Mér finnst mjög gaman ad lesa thad sem er skrifad hérna er trúfastur gestur héran á sídunni kvedja Heidveig

   ella skrifaði:
Þetta er nú bara enskusletta, skrifað eftir framburði tú dú og merkir að gera. Ef þú ferð á tenglana hér til vinstri þá eru þar líka 7 systkinabörn mín, bróðir, tengdadóttir, Helga Lilja og svo Marcia mágkona en hún skrifar nú reyndar á ensku. Töluvert er líka af góðri íslensku hjá Davíð Þór og Nönnu R. þar fyrir ofan án þess að ég ætli að gera upp á milli, en þau skrifa oft pistla í lengri kantinum. Þú þarft ekki að hika við að spyrja ef þér dettur í hug. Gaman að vita af þér hér.13.01.2008 07:32:37 / tumsa
19. Listinn langi
Í vetur vil ég gera ýmislegt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að veturinn mun alls ekki verða nægilega langur til að ég geti lokið öllu sem ég vildi en það gerir svo sem ekkert til, mín reynsla er að það kemur aftur vetur eftir þennan. Svo er líka alltaf slatti sem mig langar ekki minnstu vitund til að gera en kemst ekki hjá. Þar að auki eru líka ófyrirséðir hlutir sem taka sinn tíma. Ég ætla að gera lista yfir fyrstnefnda flokkinn. Það hvarflar ekki að mér að gera lista yfir það sem mig langar ekki að gera, það er lítil hætta á að það gleymist.
Túdúlisti.
Þæfa hatta. Miða við ca. 20 stk. til að hafa val um liti og stærðir.
Þæfa og sauma pils. Miða við ca. 20 stk. til að hafa val um liti og stærðir.
Þæfa sjöl með öðrum efnum í.
Kemba til þæfingar, á samt tilbúinn slatta.
Kemba og pakka helling af sölukembum.
Sauma fullt af ferðahosum og prjóna svo smátt og smátt.
Gera glerskálar upp í pöntun + ýmislegt annað gler í leiðinni.
Kemba og spinna ull í söluband.
Kemba, spinna og prjóna 3 peysur sem ég gaf á seinni hluta síðustu aldar.
Sauma hreindýratöskur.
Gera húfukort, pappírinn er til.
Gera tölur úr Strandasteinum og setja á spjöld.
Ganga frá töluspjöldum með steinum frá Skjálfanda, eftir að snara úr tölunum.
Skefta töluvert af eldhúsáhöldum, ég á slatta af tilbúnum sköftum.
Þæfa seríur.
Skreyta hárspangir.
Gera við stofuloftið
Mála stofuna og ef til vill fleira.
Vinna með fatahópi Laufáshópsins.
Halda námskeið í skermagerð.

Svo að skrokkurinn svíki mig ekki verð ég að passa að vera ekki of einhæf heilu dagana. Það fer til dæmis ágætlega saman að þæfa og spinna til skiptis, þá er hvort eð er allt undirlagt af ull. Auðvitað á ég líka að druslast í labbitúra inn á milli. Mér er fullkomlega ljóst að þetta klárast ekki. Ég ætla samt ekki að stroka neitt út af þessum lista en nokkuð víst er að sitthvað mun bætast við. Trúlega rétt að uppfæra listann öðru hvoru. Ég ætlaði að forgangsraða en ég sé varla hvernig. Ætli ég byrji ekki samt á ferðahosum til að geta síðan notað lausar stundir í að prjóna þær og fari svo í þæfinguna þangað til ég verð að rýma fyrir þorrablótsgestum. Eftir blót er svo ábyggilega skynsamlegt að koma stofunni frá. Og bókhaldinu. Ojæja. Ef ég skelli mér svo líka í leiklistina þá er nú líklega farið að styttast ískyggilega í sauðburðinn. Við skulum bara hafa gaman af þessu. Ég held ég halli mér.
Eftir að ég gerði þetta uppkast í gær fór ég út í Tumsu og byrjaði ekkert á ferðahosunum. Oneinei, ekkert að marka sem ég segi greinilega. Ég fór að gera við buxur fyrir Jakob sem er hér um helgina og svo fór ég að kemba mórauða sauðaull. Ég spann svo slatta af henni í gærkvöldi og ætla kannski í dag ef tími vinnst til áður en Jakob fer, að kenna honum að spinna. Jú jú, maður verður að koma þekkingunni áfram til næstu (eða þarnæstu) kynslóðar. Það er langt síðan Jakob sagði að hann ætlaði að fá sér verkfæri og áhöld eins og ég þegar hann verður stór og síðast í gærkvöldi velti hann fyrir sér hvort hann fengi kannski rokkinn eftir minn dag en ég sagði að það væri ómögulegt að bíða svo lengi því að ég ætlaði að nota hann svo marga áratugi í viðbót. Ég er mjög hamingjusöm með það að ömmubörnin mín hafa öll erft mikla handlagni einhversstaðar frá. Nú fer ég út að klára að kemba sauðinn.
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Hæ Ella; Hvar færdu alla thessa orku frá hvernig færdu thad til ad hanga saman ad vera úti vinnandi hafa heimili og svo budinna thína eda verkstædid thitt og svo ertu ad hugsa um ad bæta enhverju vid . Vá! ég vildi ad ég gæti lært eitthvad af thér jú ég ætti kannski ad sjá minna sjónvarp eda skipuleggja tíma minn betur já ég vil taka mig saman og gera thad. kvedja Heidveig
   ella skrifaði:
Heyrðu þetta er nú ekki svo flókið, sleppa bara heimilinu! Eða þannig. Handverkið er aðalvinnan, hin vinnan er núna ca.33% og heimilið tek ég í törnum þegar og ef ég má vera að og nenni. Eiginmaðurinn eldar miklu oftar en ég, ég segi að það sé vegna þess að hann er yfirleitt svengri en ég. Búðin er róleg að vetrinum svo að þá er ég frekar í framleiðslunni. Sumt er þó bara vinnandi úti við á sumrin t.d. að pússa horn og bein og slík óþrif. Aðalmálið er að maður hafi gaman af því sem maður er að gera. Það er svo hollt. Ég vildi óska að ég væri góð í að skipuleggja mig en því fer fjarri.
   Helga Lilja skrifaði:
heyrðu , hér lesa ættingjar allstaðar að! er ekki öruggleg ættarmót í sumar annars? ég segi það alla vega
fríðasystir skrifaði:
Jú! það er ættarmót. Ekki fara neitt langt í burt


13.01.2008 22:41:58 / tumsa
20. Kennslan
Búin með sauðinn og gerði við aðeins meira af fötum. Er líka af og til búin að vera að kenna spuna. Ekki laust við að sæjust vonbrigði hjá nemandanum þegar rann upp fyrir honum að þetta var einhvern veginn ekki alveg eins auðvelt og sýnist þegar amma spinnur.:$ Það er ætlast til að fæturnir vinni jafnt og alltaf í rétta átt á meðan hendurnar eru svo að brasa við eitthvað allt annað! Við erum samt hreint ekkert að gefast upp, höldum áfram næst.

   Gréta María skrifaði:
alltaf gaman að lesa þig Ella mín, þú ert svo dugleg að blogga að ég fæ að lessa nokkur blogg í einu og kvitta svo eins og mér ber að gera :) Mig langar að fara að taka þig mér til fyrirmyndar og "sleppa heimilinu" og gera meiri handverk......æ en svo er svo erfitt að byrja þegar heimilið er í rúst.......það eru svo margar litlar hendur sem eru duglegar að rusla til fyrir mér svo ætli ég bíði ekki eftir að litli maðurinn taki pásu í að safna tönnum og fer aftur að sofa á kvöldin því það er svo erfitt að prjóna og sauma þegar litlu hendurnar toga í spotta og flækja bönd :)Bið bara voðalega vel að heilsa Agnari, Sprota og rollunum. knús Gréta María ps. er soldið forvitin að vita hvort Heiðveig sem kvittar hér á síðuna er mamman hans Sævars vinar míns ?
   ella skrifaði:
Jú það passar einmitt. Þetta sýnir í hnotskurn hvað heimurinn er lítill, að vinkona mín í Ameríkunni þekkir einmitt son Heiðveigar frænku í Danmörku! Og þær lesa báðar og kvitta hjá mér! Er þetta ekki magnað? Gréta mín, mér finnst það afar auðskilið að þú skulir ekki öllum stundum vera að handverkast eitthvað. Ég þekki nefnilega börnin þín. Ég gerði nú ekki mikið í þessa áttina meðan mínir voru upp á sitt besta, það var þá helst meðan þeir voru í leikskóla o.þ.h. en þú notar ekki svoleiðis. Hafðu engar áhyggjur, ég veit af reynslu að tíminn stekkur svo hratt áfram að fyrr en varir ertu orðin amma og getur sest róleg við rokkinn. Eða þannig. Gáðu bara að því að ömmubörnin reki ekki puttana í hann, það getur verið sárt. Hvar er annars hún móðir þín gamla? Ég verð ekki vör við hana hér á síðunni??
   Lora skrifaði:
Hæ Ella mín það er gaman að lesa bloggin þín, frábært framtak hjá framtakssamri konu.
   Helga Lilja skrifaði:
æj ég skrifaði komment á færsluna fyrir neðan í staðinn fyrir þessa..döhhh en ég segi að það sé ættarmót við koðralæk í sumar sko
   ella skrifaði:
Helga Lilja mín, þér er svo velkomið að skrifa við allar mínar færslur ef þú bara vilt:-) En jú ég held að ég hafi lesið það eftir Fríðu að það eigi að kýla á það í sumar. Og einmitt jú, mér leiðist nú ekki ef það orð kemst á að allir lesi hér. Meira fjör.

No comments:

Post a Comment