Saturday, January 5, 2013

Febrúar 2008, færslur 51 - 55


06.02.2008 06:06:19 / tumsa
51. Handavinnuminningar
Fyrsta skiptið sem ég man eftir að hafa fengið hrós fyrir handverk var þegar krakkarnir í bekknum voru allir að búa sér til bolluvendi og sumum gekk ómögulega að krulla kreppappírinn með skærunum. Kennarinn sagði þá við einn strákinn; sjáðu bara hvernig Elín gerir þetta. Ég varð svo aldeilis hlessa og það er náttúrulega þess vegna sem ég man þetta. Mér fannst þetta eðlilegasti hlutur í heimi að krulla pappírinn. Þessi kennari kenndi okkur fyrstu þrjá veturna og mér finnst að þetta gæti hafa verið í öðrum bekk, en er þó ekki viss. Svo hefur það líklega verið í einhverjum af efri bekkjum barnaskólans sem við vorum að sauma kanínu í svæfilver og sporið mitt var svo jafnt og fínt og mér fannst það nánast verða af sjálfu sér og ekkert mál. Sumum öðrum gekk miður og það svo að ein stúlkan hágrét út af ekkisens kanínunni. Þarna fékk ég sem sagt lof fyrir eitthvað sem ég lagði mig alls ekkert fram við, heldur bara kom si svona. Ég man ekkert eftir öllum þeim skiptum sem ég skilaði einhverju sem ég hafði haft fyrir og trúlega er það af því að mér þótti það þá víst ekkert tiltökumál. Minnið er skrítin skepna.
Þessi færsla átti að fara inn 5. febrúar.
Sölvi afa- og ömmuljós á afmæli í dag. Innilega til hamingju.

06.02.2008 06:08:34 / tumsa
52. Drasl

Þetta fékk ég á skjáinn í fyrrakvöld:
Því miður er bilun í gangi í vélbúnaði sem hýsir BlogCentral
Vonast er til að viðgerð ljúki snemma í fyrramálið.
Jú, takk ég vona það líka:S
Þetta var þar í gærmorgun:
Því miður er bilun í vélbúnaði sem hýsir BlogCentral
Vonast er til að viðgerð ljúki í dag.
Það er nú svo.8)
Seinnipartinn var ekki sýnd sú kurteisi að útskýra neitt. :(Svo kom þetta:
Ef þú varst að reyna að komast inn á blog.central.is svæði þá viljum við benda þér á að reyna aftur sömu slóð nema hafa stóran staf í upphafi á sjálfu svæðinu. Þannig verður t.d. http://blog.central.is/slóð að http://blog.central.is/Slóð.

Ef þú ert eigandi þessarar síðu, farðu þá á
blog.central.is/hjalp og biddu um að þetta sé lagað þannig að ekki skipti máli hvort lítill eða stór stafur sé í slóðinni.
Bla blabla. 8|
Þegar ég kom af æfingu í gærkvöldi var engin skýring en ómögulegt að nálgast síðurnar þeirra og svo þegar ég sló bara inn blog.central.is þá kom þeirra eigin síða þar sem stóð glaðhlakkalega að allt væri nú komið í fínasta lag. :frown: Trúlega hafa þeir haldið það um fimmleytið því þá virtust hafa dottið inn færslur á nokkrar síður. :evil: Frat.
Lora skrifaði:
Viltu ella.skrifar.net ? :) ..það er nú kannski ekki frábært tæknimaður að störfum alla daga en þar eru engar auglýsingar!
   Fríða skrifaði:
Jáen, maður má ekki kvarta yfir því sem er ókeypis. Blogspot er líka ókeypis en ég hef bara enga ástæðu til að kvarta neitt.
   hildigunnur skrifaði:
hehe, Wordpress líka. Og ekki ein einasta auglýsing :p
   Helga Lilja skrifaði:
fjúkkit, já ég ætla að athuga hvort þessi brauðuppsskrift stemmir við brauðið sem mamma bakaði alltaf hér áður
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
hej jeg komst inn eftir langan tíma ad leit á netinu eftir blog central is tumsa nei gat ekki fundid thá sídu men loksins sá eg "handverkur" svo núna hef ég fundid sídunna. ju helga lilja thetta er örugglega brauduppskriftinn thetta er thad sem mamma bakadi alltaf og eg hef profad ad baka braudid og thad var alveg eins og hjá mömmu og svo ein lítil auglysing eg hef lika blogg sidu. heidveigragnarsdottir@hotmail.com
   ella skrifaði:
Ég vil hafa umhverfið á ÍSLENSKU:-)
   ella skrifaði:
Ja, Helga Lilja brauðuppskriftin er merkt: Frá Dóru.

07.02.2008 09:03:52 / tumsa
53. Bíó
Vá, þetta getur maður nú kallað að sofa út! Enda var horft á Engla alheimsins langt fram á nótt. Sú mynd hefur alveg sérstakan sess í mínum huga. Ég heimsótti Yngva bróður einu sinni á sjúkrahús og það barst í tal að ég væri að fara að horfa á Engla alheimsins í bíó. Gaman væri nú að sjá hana sagði hann. Við vissum bæði vel að í bíó færi hann aldrei aftur og ég hugsaði þetta mikið á leiðinni heim og á leiðinni upp Víkurskarðið ákvað ég að hringja í Friðrik Þór og athuga hvort hann fengist til að lána mér myndina á spólu en þetta var nokkru áður en hún kom á vídeóleigur. Það er ekki að orðlengja það að þetta var alveg sjálfsagt mál og ég mátti bara senda eftir henni á skrifstofuna til hans! Þegar pabbi kom þangað þumbaðist stúlka þar eitthvað við, enda aldeilis fráleitt frá viðskiptasjónarmiði séð að vera senda bláókunnugri manneskju norður í landi mynd sem var að slá í gegn og hefði verið leikur einn fyrir mig að fjölfalda eins og mér sýndist. Þetta gekk nú samt og þegar ég kom með myndina á stofuna til Yngva var þar stúlka eitthvað að vinna og ég sagði við þau meðal annars að ég hefði fengið spóluna lánaða og auðvitað lofað upp á æru og trú að hún yrði ekki afrituð. Við setjum svo myndina af stað en Yngvi hafði ekki heilsu til að horfa á hana í einni lotu svo að ég tók hana ekki með mér heim. Næst þegar ég kom til hans sagði hann mér glottandi að sjúkraliði hefði sagt hrifin daginn áður að hún gæti fengið bróður sinn til að afrita myndina en þá hafði hin brugðist snöggt við og aftekið það því að systir hans Yngva hefði sko lofað að það yrði ekki gert. Eins gott sko. Þegar ég sendi spóluna til baka þá setti ég með smá stykki úr hrosshári og beini og skrifaði að þetta hefði ekki mátt seinna vera. Ingimundur hafði það eftir starfsmanni Friðriks að hann hefði viknað.Yngvi dó þetta ár vegna heilaæxlis. Ég gekk fram á Friðrik í fyrrasumar þar sem hann var eitthvað að möndla með veiðistöng á bökkum Laxár og ég var ekki meðvitaðri en svo að ég var hálfnuð heim í bílnum þegar það rann upp fyrir mér að auðvitað átti ég að gefa mig á tal við hann og þakka honum með handabandi. Maður er stundum svo ótrúlega sljór.
   Fríða skrifaði:
Mig langaði ekki til að horfa á myndina. Ég held nú að ég hafi einhverntíma séð hana. Langar ekki að sjá hana aftur. Mér finnst hún of nöturleg. Eða ég tengi þetta við Yngva. Ég hef reyndar verið að velta því fyrir mér núna undanfarið að það er í rauninni skrýtið að hann skuli hafa langað til að sjá hana. Margir hefðu nú ekki viljað það. En hann var nú heldur ekki alveg venjulegur
   ella skrifaði:
Ónei, hann var það sko ekki. Ég horfði á hana, líklega í fjórða eða fimmta sinn. Það eru þvílíkir snilldartaktar í leik og svo horfi ég líka á búninga og svo er bara líka óborganleg speki í henni.

07.02.2008 09:08:03 / tumsa
54. Híhí
Þetta afritaði ég af síðunni þeirra:
Kæru vinir og velunnarar BlogCentral,
Aðstandendur BlogCentral harma þær tæknilegu hamfarir sem hafa dunið yfir vefinn síðastliðinn sólarhring.
Í sárabætur fyrir óþægindin sem bilunin kann að hafa valdið höfum við ákveðið að efna til skemmtilegrar samkeppni þar sem auglýst verður eftir skemmtilegasta blogginu á BlogCentral.
Ég hefði nú haft sólarhringinn í fleirtölu.
   Tóta skrifaði:
Já, velkomin á fætur frú. Nú hefur þú tækifæri til að keppa um skemmtilega færslu. Ætli "þeir" geri sér grein fyrir því hvað þeir eru að bjóða, það eru svo margir sem eru að blogga. Fín saga um Engla alheimsins og Yngva bróður.
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði.
Þú verður nú ekki í vandræðum með þessa áskorun, og láttu þá heyra(sjá) það í leiðinni. Tek undir með Tótu um englana og Yngva. Kveðja að vestan.
   ella skrifaði:
Sko það er ykkar að greiða atkvæði um skemmtilegustu bloggsíðuna.
   Helga Lilja skrifaði:
nú fékk ég tárin í augun vegna Yngvasögunnar. það er ágætt það er mikill spenningur í fjölskyldunni útaf þessari blessuðu brauðuppskrift get ég sagt ykkur, Dóróthea æltar að prófa uppskriftina fyrir þorrablótið okkar á laugardaginn. Held að þetta brauðmál eigi skilið blogg hjá mér í stað sníkjubloggs hér
   ella skrifaði:
Mér þykir mjög vænt um sníkjublogg. Og bráðskemmtilegt hvað hægt er að gagn af bloggi, til dæmis í brauðmálum.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
thad er gott ad vita ad madur kemur gangs enhver stadar til dæmis i braudmálum
   Helga Lilja skrifaði:
já takk frænkur, Heiðveig ég skoðaði bloggið þitt en gat ekki sett komment, veit ekki hverju ég klúðraði slóðin á heiðveigu er: http://glinglo1.spaces.live.com/

08.02.2008 09:15:38 / tumsa
55. Snið
Langur Akureyrardagur í fyrradag. Hádegi til miðnættis næstum. Aðallega með fatahópi Laufáshópsins. Ég leitaði líka að efni í ermar á sparikjólinn minn en fann eiginlega ekki draumaefnið. Tók þá næsta bæ við og geri svo stuttan jakka, boleró eða hvað sem það nú nefnist, og stefni að því að klæðast honum á þorrablóti á laugardagskvöldið. Best að fara að rusla ljósakrónum og rafmagnsdóti af borðstofuborðinu og skálda upp eitthvert snið. Hvar er Hulda Ragnheiður?
   Þorbjörg skrifaði:
Bara til að kvitta, og láta vita af mér ;)Á maður ekki alltaf að gera það? Gangi þér vel með sniðavinnuna og stofuna. Bestu kveðjur Þorbjörg
   Fríðasystir skrifaði:
Nú, ég hélt að þorrablót væru búin
   Kristjana Vestfirðingur skrifaði:
Æ synd og skömm að ekki er hægt að nota allt það efni sem fellur af himnum ofan þessa dagana. Þú sem ert svo hugmyndarík og framkvæmdarsöm, að það vefðist ekki fyrir þér að galdra fram fínasta silki og ég efast ekki um að það dygði í ermar. Jæja ekki meira bull, skemmtu þér vel og láttu þér ekki verða kalt í ermalausum kjól, án dansglaðra frænda til að halda á þér hita. Kveðja, Kristjana sem sér bara hvítt út um gluggann.
   Þórey Birna skrifaði:
Leit hér við. Takk kærlega fyrir síðast, mér sýndust þeir nú ekki vera margir dansarnir sem þú slepptir úr á blótinu. kv. Þórey þaksmiður :)
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
ég er næstum viss um ad ég hef thad efni sem thér vantar ég á svo mkid af efnum ad eg get opnad búd \"segir Henning\" en láttu mig vita næst thegar thig vantar etthvad en thad verdur ad vera í gód tíd góda skemmtun med ad snida og sauma vinnunna og á thorrablótinu
   ella skrifaði:
Jú einmitt Þorbjörg, það er ákaflega vel séð. Þorrablót klárast seint Fríða. Kristjana farðu út og búðu til styttur úr efninu þínu. Takk sömuleiðis Þórey, taldirðu nokkuð? Heiðveig, draumaefnið er örþunnt dökkvínrautt, með munstri í sama lit. Til dæmis svona eins og það sé saumað í.
   Heidveig Ragnarsdottir skrifaði:
Nei thví midur held ekki ad ég eigi dökkvínrautt en eg vil kikja eftir thví og læt thig vita

No comments:

Post a Comment