Saturday, January 5, 2013

Janúar 2008, færslur 31 - 35


20.01.2008 20:22:28 / tumsa
31. Lyfting
Jólakakan átti að verða sérlega létt og fín því ég var ekkert að spara eggin enda nóg til, hænurnar farnar að verpa aftur og svona. Það þýddi nú samt ekki að það væri allt í lagi að gleyma lyftiduftinu. Ætti kannski að æfa mig oftar.

21.01.2008 05:47:31 / tumsa
32. 1000
Í nótt kom þúsundasti gesturinn á síðuna. Fyrirgefðu að ég skyldi ekki bjóða þér jólaköku, ég var bara sofandi.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Góðan dag og velkomin á fætur. Reyndar hugsa ég að þú sofir varla ef taka má mark á listananum góða sem ég las áðan, um aðgerðaáætlun. En hvað er húfukort ?, annað er ég að skilja, allavega á minn hátt. Hér heilsar nýr dagur fallegur og bjartur snjóföl yfir og landið fagurt. Það trúa bara svo fáir að hér hafi ekki komið vont veður og kafsnjór, en svona er þetta bara, það má ekki blása á suðurlandi þá er bókað að það sé verra hér, sem er sjaldnast. að öðru, en gaman að fá að "heyra" af Heiðveigu, það er æði langt síðan við höfum frétt af henni, hingað til hafa gamlar minningar verið notaðar, enda góðar. Hæ Heiðveig !! Þá verður þetta ekki lengra í bili, þarf að sinna dægurþrasinu. Kveðja að vestan, Kristjana Mmmmm hvað er annars langt til þín ha.................
   ella skrifaði:
Húfukort er tækifæriskort úr handgerðum pappír, leðri, togi, silfurvír, silfurkeðju og hrosshári. Úr þessu geri ég mynd aftan af höfði peysufatakonu. Það er nefnilega það sem er skemmtilegt við bloggið eins og ég vil nota það, að spjalla um heima og geima við gamla, og eftir atvikum nýja vini og tengja þá saman. Ég hef ekki græna glóru um hversu langt er til mín í kílómetrum en þú ert kannski að meina í dögum? :-)
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
já hæ kristjana ja´thad er langt sídan ég hef lika verid ad rifja upp gamlar gódar minningar og skoda myndir frá "tálknó" hvar byrd thú/thid erud thid ennthá á vestfjördunum? thad er svo gaman ad lesa bloggid thitt ella thví madur fær alltaf enhver ný ord ad kenna og svo er ég byrjud ad prjóna ílenskar lopapeysur og thar get ég æft mig í íslenkunni mér finnst mer ganga thó nokud vel ekki rétt ?...sko vid ad lesa uppskriftinar mig vantar fleiri bækur ætla ad hringja í álfoss á morgun og panta feiri
   ella skrifaði:
Heiðveig það eru líka alltaf einhverjar ókeypis uppskriftir á istex.is
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Ok eg verd ad profa thad ...eg er ad tala vid jóh¨nnu systir á msn og var ad segja henni ad eg væri ad heimsækja thig á blogginu og hún spurdi hvort hún mætti lika koma í heimsokn her á sídunna
   ella skrifaði:
Jahahá, ALLIR velkomnir, því fleiri, því meira gaman.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Hæ aftur, bara svara Heiðveigu, við búum enn á Tálknafirði svo það ætti að vera lítið mál að finna okkur. Erum tvö í kotinu, nóg pláss. Kveðja Kristjana

22.01.2008 06:52:29 / tumsa
33. Föt
Jamm. Þá er að tína til snöggvast eina 20-30 alklæðnaði á lægri stéttar braggahverfisbúa á ýmsum aldri á árunum kring um 1955-1960. Þigg aðstoð og ábendingar og föt og myndir.
   Unnur María skrifaði:
Það er auðvitað mjög mikið af myndum í braggabókinni hans Eggert Þórs Bernharðssonar. (Undir bárujárnsboga) Kemstu í hana? Ef þú átt ekki auðvelt með það get ég alveg fyrst ég er nú daglega á bókasafninu ljósritað nokkrar viðeigandi myndir og skellt í umslag til þín. :) Segðu bara til. :)
   ella skrifaði
Ja þarna var auðvitað rétta manneskjan! Við vorum einmitt að spá í þessa bók í gærkvöldi og ég fékk hana einu sinni lánaða hjá skjólstæðingi mínum hér í sveitinni, en ég á eftir að komast að því hvert bókin fór eftir að eigandinn dó. Ég fann mynd á netinu af "mér" þ.e.a.s. ljósmyndarinn var alinn upp af Jósefínu og ég er næsta viss um að þetta er hún. Ég sló inn "braggahverfi". Ég er nú alls ekki klárasti leitarinn og mér þykir mjög vænt um að fá að eiga þig að og hef líklega samband þegar ég sé hvað hinir í hópnum reyta saman. Takk.
   Hlíf frænka skrifaði.
Kærastinn minn á þessa bók og hann á líka skanna... svo ég gæti líka sent þér myndir í tölvupósti:)
   Gréta María skrifaði:
ég á engar myndir eða bækur handa þér, en langaði bara að kvitta fyrir mig og knúsa þig soldið í leiðinni. kveðja til Agnars líka Gréta María og "englarnir" hennar

22.01.2008 19:23:48 / tumsa
34. Dösuð
Þetta var bara skrök að að ég þyrfti að finna til 20 – 30 alklæðnaði. :) Ég fór í morgun vandlega í gegn um handritið og setti upp exelskjal með persónum og leikendum og búningum og mér virðist að ég þurfi að tína til ca. 40 alklæðnaði. :( Þá er það um það bil helmingur af því sem þurfti í Landsmótinu sem við lékum síðast. Ég var svo heppin í gærkvöldi að fá manneskju mér til aðstoðar og ég veit að hún verður betri en engin. Í dag hringir hún svo í mig og segir mér að það sé verið að tæma búningageymslur Búkollu heitinnar og eigi að henda þar miklu. Þetta búningasafn er barnið mitt og mér brá nokkuð og brunaði í Ýdali, þá átti sem sagt að rýma þar til sem ég hafði reyndar frétt áður, en ég var að vona að það drægist þangað til ný búningageymsla yrði tilbúin á Breiðumýri. Við flokkuðum og tókum til og farið var með 2 troðfulla bíla í ruslagám, 2 í geymslu í Ljósvetningabúð og ég fyllti minn og á eftir að sækja annað eins til að fara með í Breiðumýri. Mikið væri yndislegt að hafa umráð yfir aðgengilegu búningasafni í góðu plássi þar sem hægt væri að ganga að hverjum hlut. Mér virtist nú í þessari hröðu og óskipulegu yfirferð að þarna væri líklega megnið af því sem við þurfum á að halda í Djöflaeynni, bara spurning um að velja. Þá þarf ég að vera búin að spuggulera meira í myndum. Ég þarf til dæmis að gera mér betur grein fyrir klæðnaði konu sem er að koma úr saltfiskvinnu í ískulda og kemur að barni sínu sem er búið að svifta sig lífi. Takk fyrir skjót og góð viðbrögð Unnur og Hlíf, ég á eftir að sjá hvað kemur upp úr krafsinu í leikhópnum en ég mun hafa samband.
   Jóhanna Ragnars skrifaði:sæl frænka gaman að fletta í gegnum færslurnar hjá þér þú virðist hafa fleiri kl.tíma í sólahringnum en við hin, gaman að fá að fylgjast með. heyrumst síðar. kv. jóhanna   Fríðasystir skrifaði:Já, spáðu í að hafa svona búningageymslu eins og í Örlaganóttinni. Þú veist, múmín   Óttar skrifaði:örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin örlaganóttin...   ella skrifaði:Óttar minn er allt í lagi? Annars þykir mér leitt að viðurkenna það að ég náði aldrei eins góðum tengslum við múmínálfana eins og systkini mín sum. Stafar það eitthvað af því að ég fór snemma að heiman?

23.01.2008 02:04:18 / tumsa
35. Dagur eða nótt
Síðast þegar ég vaknaði leit ég á gluggann og var ekki frá því að það væri að koma smá dagsskíma, enda var ég svo glaðvakandi að það gat bara vel passað. Rölti fram og taldi rétt að fara að tygja sig út í Tumsu og halda áfram þar sem frá var horfið þegar ég hentist af stað í búningana í gær. Leit á klukku og hún var rúmlega miðnætti. 8| Svona getur það verið ef maður sofnar fyrir klukkan átta að kvöldi. Best að fara bara samt út fyrst ég varð ekki nógu syfjuð af bloggrúntinum. Þið eruð stundum að nefna að ég virðist eiga aukatíma, en málið er líklega bara að þegar maður má nýta tímann næstum eins og manni sýnist en þarf ekki alltaf að miða sig við annarra tíma, til dæmis lítilla barna, skóla eða vinnuveitenda, þá hlýtur að verða meira úr honum. Eins og ég segi; sofa þegar maður er syfjaður og vinna þegar maður er sprækur. ;) Rétt að taka það fram að það sem ég vinn utan heimilis á veturna er þannig skipulagt að ég mæti svona cirka klukkan þetta eða hitt og skila ákveðnum tímafjölda. Stundum er ég aðeins lengur eða skemur eftir því hvernig stendur á spori. Ef ég er að vinna í Kaðlín er ég sennilega alltaf lengur en það eru svo fáir tímar sem þarf að skila þar á þessum árstíma.
   Fríðasystir skrifaði:
Já, eins gott að vita þetta. Annars leit ég nú svona undir gluggatjaldið klukkan svona 5 í nótt og sýndist himininn nokkuð bjartur. Þá var þetta bara tunglið að glenna sig
   Róbert Stefán skrifaði:
Já það er skelfilegt að eldast og hætta að geta sofið á morgnana :(
   ella skrifaði.
Hvernig veistu??
   Róbert Stefán skrifaði.
Ég er aðeins farinn að kynnast því!

No comments:

Post a Comment