Saturday, January 5, 2013

Janúar 2008, færslur 26-30


18.01.2008 09:32:35 / tumsa
26. Litlu mennirnir innan í mér
Þegar ég var kornung var ég með það á hreinu að líkama mínum væri stjórnað af litlu mönnunum innan í mér. Það sem ég man best núna er að ef ég var veik þá stafaði það af því að litlu mennirnir innan í mér voru að rífast. Þeir hljóta þá að hafa farið í stríð þegar ég var tæplega tveggja ára og botnlanginn sprakk svo ég fékk lífhimnubólgu og var í dái í marga daga. Ég man ekki mikið eftir þessu nema að það var svo skrýtin líðan þegar ég var að læra að labba upp á nýtt. Mig mun hafa svimað. Annað man ég líklega ekki frá þessum tíma en oft eru ekki glögg skil á því sem maður man sjálfur og því sem manni hefur verið sagt. Ég gæti svona trúað að maður muni frekar sjálfur tilfinningu og hugsanir, en sögur annarra séu oftar um tilsvör og atburði. Þegar þetta gerðist var ekki komin barnadeild á Akureyri og ég lá á stofu með eldri konum. Meðal þess sem mér hefur verið sagt er að ég hafi stundum sagt við þær. Viltu hringja bjöllunni svo að konan komi svo að mamma mín komi? Mamma var að vinna á sjúkrahúsinu á þessum tíma og skrapp stundum til mín. Á þessum tíma tíðkaðist aldeilis ekki að foreldrar væru mikið að þvælast fyrir við umönnun veikra barna sinna á stofnunum. Við styttum okkur víst líka stundir með því að konurnar þjálfuðu mig í tali, til dæmis þótti þeim gaman að heyra mig segja aðspurð: Þú heitir Gvuðfiinnna. Ég vandaði mig víst mikið og kvað fast að. Ég er stundum að hugsa að mig langar að lesa læknaskýrslurnar mínar frá þessum tíma en það er víst meira en að segja það að finna þær í einhverjum geymslum. Árið mun vera 1958.
   Gréta María skrifaði:
börn eru svo sniðug og skemmtileg og horfa á heiminn og líkamann svo allt öðrum augum en við fullorðnu. mamma er komin heim frá Kanarí en internetið er eitthvað að hrella hana ég býst við því að hún kíki bráðum á bloggið þitt kveðja Gréta María. ps. er ég númer hundrað?
   ella skrifaði:
Óttalegur þvælingur er þetta á gamla fólkinu nú til dags, ég hafði ekki hugmynd um að hún væri ekki á landinu. Jú Gréta María þú ert númer 100!

18.01.2008 13:16:12 / tumsa
27. Nr.100
Næsta athugasemdafærsla verður sú hundraðasta á blogginu mínu. Þið eruð aldeilis dugleg. Ég er búin að ákveða að veita viðurkenningar fyrir næstmesta fjölda athugasemda í lok hvers mánaðar.:) Það á að vera næstmest vegna þess að ég er sjálf með mest því að ég er svo oft að svara athugasemdum.
   fríðasystir skrifaði:
hvernig ferðu eiginlega að því að telja athugasemdir?
   ella skrifaði:
Ég fylgist með því á vefstjórn hvort eitthvað hefur bæst við svo að ég missi nú ekki af gullkornum ykkar. Svo fór ég að gamni mínu að merkja við á exelskjali. Þetta eru athugasemdir númer 105.
   Þóra skrifaði:
Jahá...ég á ekki til orð.
   ella skrifaði:
Gott hjá þér að skrifa samt Þóra mín:-)
   Nanna skrifaði:
Hehe, fyndið

 18.01.2008 22:56:15 / tumsa
28. Jibbýjeiog trallalei.
Mér leiðist ekki lífið rétt núna, eiginlega er ég himinlifandi. :D Síminn hringdi í kvöld og …ég fæ skemmtilegasta hlutverkið í Djöflaeyjunni!!!! :D Þið megið giska en ég hef ekki trú á að það taki ykkur langan tíma að finna hvaða hlutverk það er. Já og svo ætla ég líka víst að sjá um búningana. Túdúlisti hvað? Ég geri það nú allt bara svona með hinni hendinni. Trallalallalei. Þið megið samgleðjast mér það er nefnilega enginn hérna til þess. Agnar deilir ekki með mér áhuga á leikhúsi greyið.:(
   fríðasystir skrifaði:
verðurðu hún þarna spákéddlingin?
   fríðasystir skrifaði:
en þú hefur ekki tíma, varstu búin að gleyma því?
   Nanna skrifaði:
:) Til hamingju með það. Það er svo langt síðan ég las bókina, að ég hef ekki hugmynd um hvaða hlutverk þú fékkst...
   ella skrifaði:
Uvvðida. Tíma? Hvað er nú það?? Stelonum bara einhvursstaðar.
   fríðasystir skrifaði:
til hamingju :) ég skil þetta uvvida þannig að þú sért Lína. Nú ætla ég að lesa djöflaeyjuna og ímynda mér þig segja hluti eins og t.d.: "Þetta er smá helvítis tittur" haha já, og: "Já og hann skal ekki fara að hitta Éggvan færeying og einhverjar tittlinganámur með mínu leyfi núna, heyrirðu það Tómas, einhverjar norskar tittl..." Mikið vona ég að þessar línur séu ekki bara í bókinni heldur leikritinu líka.
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
til hamingju Ella: Thú hefur thvílika orku finnst mér ég fæ svolitla minnimáttarkennd en thú ert alveg frábær finnst mér. vildi óska ad ég gæti gert svona mikid nokkud af thvií sem ég vil gera kemur aldrei lengra en í draumaheiminn
   ella skrifaði:
Því miður þín vegna Fríða er ég hrædd um að ég sé ekki með þessar setningar, ég er bara einu sinni búin að renna í gegn um handritið og mér sýndist að það væru nú aðallega Baddi og félagar sem hefðu þennan munnsöfnuð. Blessuð vertu Heiðveig, þú hefur hálfa æfina til að gera það sem þú átt ógert! Bara að bretta upp ermarnar og forgangsraða upp á nýtt. Já ég veit, ég tala bara eins og þetta sé ekkert mál.
   Marcia skrifaði:
Til hamingju, Ella! :) En ég skil ekki, með allt annað sem þú hefur talað um að gera á næstunni, hvar þú finnur tími til þess! lol Jæja, goða skemmtun!
   ella skrifaði:
Takk takk allir. Marcia, ég sagði það hér að ofan; ég stel bara tíma einhversstaðar:-)
   Þorbjörg skrifaði:
til hamingju með hlutverkið

19.01.2008 22:07:19 / tumsa
29. Svöng
Mér finnst ekki vera neitt til til að borða. Opna ísskápinn og langar ekki í neitt sem þar er. Kannski þess vegna sem ég léttist? Hálfur mánuður síðan ég fór í kaupstað og ekkert til ofan á brauð og engir ávextir. Ætti kannski ekkert að vera að þvælast í kaupstað fyrr en í vor. Ég fer þá ef til vill að passa í eitthvað af fötunum mínum aftur. Ekkert hungur samt svona til að forðast allan misskilning enda matur í fjórum frystikistum, bara ekkert sem mig langar í.
   Kristjana Andrésdóttir skrifaði:
Æ það var ekki hægt annað en að láta vita af sér, úr því þú hafðir svo mikið fyrir að koma til okkar "handvekinum". Frænda þínum var svolítið brugðið; það er ekkert nema um hunda og brækur, hafa þær ekkert þarfar að tala um. Ég brosti bara, hvernig eiga kallar að skilja kvennahjal ? Jæja "gamla", ( það er svo langt síðan við hittumst fyrst) vonandi færðu einhverja fleiri af skilduliðinu til að skrisfast á við þig og leggja orð í belg, kanski kemur eitthvað skemmtilegt út úr því. Eftir því sem ég kemst næst kemur þú ekki til með að skrifa mikið næstu 6 vikurnar, ef ég les rétt úr, svo þú verður að romsa úr þér áður en þú verður andsetin af spákerlingunni. Jæja, best að fara að sofa, hér er nógur tími til að sofa, enda engar rullur undir koddanum. Kíki á þig seinna. Kveðja Kristjana
   Heidveig Ragnarsdóttir skrifaði:
Æi hvad ég skil thig thad eru svona dagar til en veistu hvad ég geri thegar mer finnst ísskápurinn vera tómur thá baka ég pönnukökur ekki bara svona fimm stykki nei nei margar!!!! thess vegna passa ég ekki í fötin mín svo thú ættir ad halda thér frá thví, en ég er byrjud ad gera eitthvad í thví núna tví ég vil grennast er byrjud í svoan klúbb thar sem eg fæ rád og vigtun byrjadi í sídustu viku
   ella skrifaði:
Haaa Kristjana, er honum eitthvað farið að förlast gamla manninum? Mig rámar hvorki í að hafa fjallað um hunda né brækur og væri þó hvorttveggja verðugt efni. Heiðveig, á mínu heimili var það bara yngsti sonurinn sem bakaði pönnukökur en hann er löngu fluttur að heiman.
   ella skrifaði:
...og kvennahjal?!?!? Hér eru bara skynsamlegar spekúleringar fyrir skynsamt fólk!! Af öllum kynjum! Vertu svo bara velkominn frændi minn og Kristjana.

20.01.2008 19:41:46 / tumsa
30. Haldið ykkur nú fast
Svei mér þá, ég er búin að baka jólaköku. 8| Þetta gerðist síðast einhvern tíma á síðustu öld, man alls ekki nánari tímasetningu. Og ekki einu sinni af því að mig hafi sjálfa langað í hana, nei, Agnar tautaði að hann langaði í jólaköku þegar hann var að sofna í gærkvöldi og ég sagðist baka hana í dag og vantrú hans var svo augljós að ég mátti auðvitað til. Svona er maður nú alltaf eftirlátur og meyr. ;) Eða þannig.

No comments:

Post a Comment